Mjög snúin staða er komin upp í aðdraganda kjaraviðræðna á almenna vinnumarkaðnum og óvissa ríkir um hvaða stefnu þær muni taka.
Markmið samninga ASÍ og SA frá í vetur um að leggja grunn að stöðugleika með hóflegum launahækkunum hefur skilað þeim árangri, að verðbólgan er lægri en ASÍ þorði að vona og félagsmenn þess njóta í dag meiri kaupmáttaraukningar en þeir áttu von á.
Nú hefur hins vegar komið betur í ljós að samningar einstakra hópa við ríki og sveitarfélög sem gerðir voru í kjölfarið kváðu á um mun meiri hækkanir en lagt var upp með í samningum SA og ASÍ. Skv. heimildum má ætla að þær séu almennt á bilinu 7-9½%, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.