„Hver veit nema að þú sért raðnauðgari“

Það þarf töluvert mikinn ásetning og mikið skipulag til að eitra fyrir þremur vinkonum þannig að þær hreinlega lamast, sjá ekki og geta ekki talað. Þetta segir kona sem lýsir lífsreynslu sinni á Facebook.

Konan segir að sér og tveimur vinkonum hennar hafi verið byrlað nauðgunarlyf á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur um liðna helgi. „Núna eru komnir þrír dagar síðan þetta gerðist og við vinkonurnar erum að koma til, við erum ennþá með mikla krampa, mikinn svima, kaldan svita, við erum aumar í öllum líkamanum, kokinu, brjóstkassanum, við erum marðar og bláar en við munum jafna okkur, en það er ekki þér að þakka, því það munaði svo litlu að við hefðum fengið ör af þinni hendi sem hefði ekki verið hægt að taka til baka,“ segir konan í færslu sem hún birtir á samfélagsvefnum Facebook.

Hún segir að lögreglan rannsaki málið og skoðaðar verði upptökur úr eftirlitsmyndavélum.„[É]g vona að þeir finni þig, en það versta við það er að dómskerfið okkar er svo veikt þegar kemur að lögum um slík mál að þrátt fyrir að þú hafir örugglega nauðgað mörgum, fengið margar kærur þá gengurðu laus í mörg ár á eftir og heldur áfram að eyðileggja líf fólks í þinni eigin eymd og volæði um hverja einustu helgi.“

Og hún segir augljóst að þetta hafi verið skipulega unnið. „Hver veit nema að þú sért raðnauðgari sem stundir þetta hverja helgi. Það þarf a.m.k. töluvert mikinn ásetning og mikið skipulag til eitra svona fyrir þrjár vinkonur svo þær lamist með þessum hætti og geti hvorki séð né talað.“ 

mbl.is