Áttunda aftakan í Missouri á árinu

AFP

Dæmdur morðingi var tekinn af lífi í Missouri snemma í morgun en hann er áttundi fanginn sem er tekinn af lífi í ríkinu það sem af er ári.

Earl Ringo, fertugur blökkumaður, var dæmdur til dauða árið 1998 fyrir að hafa myrt mann þegar hann framdi vopnað rán á veitingastað þar sem hann starfaði.

Hann var úrskurðaður látinn klukkan 5:31 að íslenskum tíma í morgun en hann var tekinn af lífi með banvænni sprautu. Samkvæmt upplýsingum frá fangelsismálayfirvöldum í Missouri var hann úrskurðaður látinn níu mínútum eftir að aftakan hófst.

Ringo er eins og áður sagði sá áttundi sem er tekinn af lífi í Missouri í ár en alls eru aftökurnar orðnar 28 í Bandaríkjunum það sem af er ári. Aldrei hafa jafn margir verið teknir af lífi þar í landi á þessum tíma árs frá því dauðarefsingar voru heimilaðar á ný á áttunda áratugnum. 

Fangelsismálayfirvöld í Texas hafa boðað aftöku síðar í dag og er það sú áttunda í ríkinu í ár. 

Ringo og félagi hans drápu sendibílstjóra og starfsmannastjóra á  Ruby Tuesday veitingastað sem þeir rændu aðfararnótt 4. júlí 1998.

mbl.is