Lögreglumaðurinn sem skaut átján ára, óvopnaðan pilt til bana í Missouri ríki í Bandaríkjunum í sumar var kallaður fyrir kviðdóm í St. Louis í dag. Fréttastofan AFP hefur þetta eftir bandaríska dagblaðinu St. Louis Post-Dispatch.
Dagblaðið vitnar í ónefndan heimildarmann sem segir að lögreglumaðurinn, Darren Wilson, hafi verið í yfirheyrslum í næstum því fjóra tíma á þriðjudaginn.
Wilson hafði áður rætt við rannsóknarlögreglumenn í St. Louis sýslu og einu sinni við fulltrúa Alríkislögreglunnar, en samkvæmt upplýsingum frá heimildarmanninum hefur Wilson verið samvinnuþýður frá upphafi.
Wilson var leystur frá störfum eftir að hann skaut Brown í úthverfinu Ferguson 9. ágúst. Mikil reiði myndaðist í kjölfarið þar sem fólk mótmæli dauða Brown og meintu ofbeldi lögreglunnar.
Atvikið skapaði jafnframt mikla umræðu á landsvísu í Bandaríkjunum um kynþætti og lögreglu, en Brown var þeldökkur.
Lögregluyfirvöld héldu því fram að Brown hafi verið skotinn eftir að hafa átt í átökum við lögreglumanninn. Hins vegar hafa vitni sagt að Brown hafi verið uppi með hendur er Wilson skaut hann. Brown var skotinn sex sinnum og lést samstundis.
Margir íbúar Ferguson vilja að Wilson verði ákærður fyrir morð.