Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur vill meiri rannsóknir á áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda í Vatnsmýri, en veruleg óvissa ríkir um áhrif framkvæmdanna á friðlandið í Vatnsmýri og Reykjavíkurtjörn.
Þetta kemur fram í bókun nefndarinnar sem beint er til Umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar. Þar kemur einnig fram að rannsóknir sérfræðinga á vatnafari Vatnsmýrarinnar og tilsvarandi líkanagerð mundu ekki liggja fyrir áður en framkvæmdir hæfust á Hlíðarenda, að því er fram kemur í umfjöllu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina á sviðinu, Gréta Björg Egilsdóttir, lagði fram bókun, þar sem fram kom að rétt væri að fresta framkvæmdunum þar til búið er að rannsaka áhrif þeirra til hlítar og að rannsóknargögn yrðu látin ráða ákvörðun um frekari framkvæmdir.