Veiddu samtals 137 langreyðir

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Við erum bara að hætta þessu. Hval­ur 9 er hérna hjá okk­ur og Hval­ur 8 er í Reykja­vík. Þeir voru báðir að losa hjá okk­ur. Við erum bara að klára hérna.“

Þetta seg­ir Gunn­laug­ur F. Gunn­laugs­son, stöðvar­stjóri í Hval­stöðinni í Hval­f­irði, í sam­tali við mbl.is en hval­veiðivertíðinni hvað langreyðir varðar er lokið að hans sögn. „Við höf­um yf­ir­leitt reynt að halda þessu áfram fram yfir 20. sept­em­ber þegar það kem­ur bræla. Það spá­ir núna þriggja daga brælu.“

Spurður hvernig vertíðin hafi gengið læt­ur Gunn­laug­ur frek­ar vel af henni. „Þetta hef­ur gengið þokka­lega vel,“ seg­ir hann. Sam­tals hafi 137 langreyðir veiðst. En veður hafi sett strik í reikn­ing­inn í sum­ar. „Það hef­ur bara verið mik­il ótíð hjá okk­ur.“ Hval­veiðiskip­in fóru síðustu ferðina í gær að sögn Gunn­laugs og náðu strax tveim­ur dýr­um hvort. „Þannig að það er nóg af þessu.“

Hrefnu­veiðimenn hafa veitt 22 hrefn­ur í ár að sögn Gunn­ars Berg­mann Jóns­son. Það sé tölu­vert und­ir því lág­marki sem stefnt hafi verið að en veður hafi ekki síst sett strik í reikn­ing­inn. Hrefnu­veiðum verði haldið eitt­hvað áfram fram á haustið.

mbl.is