Páll Matthíasson, sem hefur verið forstjóri Landspítala í eitt ár, segir að heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra hafi báðir báðir staðfest í samtölum við hann að verið er að vinna að fjármögnun meðferðarkjarna og rannsóknarkjarna á Landspítalalóð.
„Fjármálaráðherra hefur staðfest við mig að þetta er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar og að hann styður uppbyggingu Landspítala á grundvelli fyrirliggjandi hönnunar,“ segir í föstudagspistli Páls.
„Margt hefur gengið spítalanum í haginn á undanförnu ári. Viðleitni til að bæta traust og starfsumhverfi hefur þokast í rétta átt og Alþingi sýndi fjárþörf spítalans skilning og veitti auknu fé til tækja og rekstrar. Þar hafa margir lagst á árar við að hefja uppbyggingu eftir margra ára fjársvelti.
Margt er þó enn ógert. Yfirvofandi verkfall lækna minnir á að enn er töluvert í land að kjör starfsfólks séu viðunandi. Enn vantar fé til rekstrar ef þjónusta á að haldast og húsnæði spítalans er víða í skelfilegu ástandi og skapar öryggisógn. Það er dagljóst að bæta þarf eldra húsnæði en það verður þó aldrei annað en plástur þangað til nýbyggingar rísa,“ segir Páll meðal annars.