Tekjurnar standa ekki undir þeirri þjónustu sem af RÚV er vænst

Magnús Geir, útvarpsstjóri.
Magnús Geir, útvarpsstjóri. mbl.is/Þórður

Magnús Geir Þórðarson, útvarsstjóri fundaði með starfsfólki Ríkisútvarpsins í morgun, þar sem hann fór yfir stöðu RÚV og svaraði fyrirspurnum. „Þetta var góður fundur, þar sem ég kappkostaði að fara heiðarlega yfir stöðu mála. Ég hef lagt upp með það frá því ég tók við starfi nú í vor að leggja staðreyndirnar á borðið og veita eins markvissar upplýsingar og fært er,“ sagði Magnús Geir í samtali við mbl.is.

Magnús segir að það eigi bæði við um stjórn RÚV og starfsfólk.

Aðspurður hvort ekki lægi ljóst fyrir að RÚV verði að ráðast í breytingar á rekstrinum, miðað við fjárhagsstöðu fyrirtækisins, sagði Magnús Geir: „Vandi RÚV í dag er tvíþættur. Annars vegar er það efnahagsreikningurinn, skuldsetningin er allt of mikil og þar er löng saga á bak við. Hins vegar er að reksturinn hefur verið þungur í mörg ár og er það ennþá. Eins og kunnugt er hefur RÚV ekki fengið allt útvarpsgjaldið til sín og þjónustutekjur hins opinbera hafa ekki staðið undir þeirri starfsemi sem af RÚV er vænst í lögum og samkvæmt þjónustusamningi. Hinn valkosturinn er að breyta hlutverki RÚV frá því sem nú er, en það er ekki á okkar valdi að gera það, heldur er það pólitísk ákvörðun sem yrði þá tekin af Alþingi.“

mbl.is