Nítján ára piltur í Ohio fékk í gær dauðadóm fyrir að eiga þátt í morði á átján ára dreng. Pilturinn er sá yngsti sem hlotið hefur dauðadóm í ríkinu.
Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu 1. október að Austin Myers hefði gerst sekur um morð, mannrán og aðra glæpi. Refsing hans var ákveðin í gær.
Justin Back var myrtur í janúar. Myers hefur neitað að hafa átt þátt í morðinu. Saksóknari sagði við meðferð málsins að Myers og félagi hans hefði lagt á ráðin í tvo daga um að ræna og myrða Back. Þeir hafi reynt að kyrkja hann en að endingu var það félagi Myers, Timothy Mosley, sem stakk hann til bana.
Mosley gerði hins vegar samning við saksóknarann og benti á félaga sinn, Myers. Refsing Mosleys verður kveðin upp á föstudag en hann mun, samkvæmt samkomulagi við saksóknarann, ekki fá dauðadóm.
140 manns í Ohio bíða þess að verða teknir af lífi. Enginn hefur verið tekinn af lífi í ríkinu frá því í janúar.