Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér er hún spurð út í það hvort hægt sé að losna við karlmannsbrjóst.
Ég á við smávandamál að stríða, ég er fimmtugur karlmaður og veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér. Er hægt að fara í aðgerð og laga svokölluð man boobs?
Hvað kostar slík aðgerð?
Kveðja,
Einn í ruglinu.
Sæll og takk fyrir spurninguna.
„Man boobs“, karlmannsbrjóst eða „gynecomasty“, er vel þekkt vandamál karla. Örsökin getur verið lyfjagjöf, stundum kannabisneysla en oftast er hún ókunn. Það er yfirleitt hægt að laga og fjarlægja karlmannsbrjóst (sk. gynecomasty). Þarf að meta í hverju tilfelli fyrir sig hvers konar aðgerð þörf er á. Stundum er nóg að notast við fitusog til þess að fjarlægja umframkirtil og þá er lítill skurður hliðlægt á brjóstkassanum. Ef kirtilvefurinn er mjög þéttur í sér og ekki fituskorinn þá þarf að gera skurð við vörtubaug og fjarlægja hann. Það fer eftir orsökinni hvort sjúkratryggingar taka þátt í greiðslunni fyrir aðgerðina. Ef aðgerðin er á þinn kostnað fer kostnaðurinn eftir því hvers konar aðgerðar er þörf, en er yfirleitt undir 250 þúsund krónum.
Gangi þér og vel og bestu kveðjur,
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR.