Næsti fundur í kjaradeilu Læknafélags Íslands við ríkið fer fram í húsnæði Ríkissáttasemjara klukkan 15 í dag. Síðast var fundað á þriðjudaginn og stóð sá fundur yfir í hálftíma. Boðaðar verkfallsaðgerðir hefjast nk. mánudag, hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma.
„Við metum ástandið þannig að það sé ekki neitt að þokast í samkomulagsátt,“ sagði Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, eftir fundinn.
Boðaðar verkfallsaðgerðir eru aðeins í ákveðna daga og aðeins mun hluti lækna fara í verkfall hverju sinni.
Vinna lækna í verkfalli verður í samræmi við undanþágulista sem fjármálaráðuneytið birti í auglýsingu nr. 101/2014 og er gert ráð fyrir að á þeim dögum sem efnt er til verkfalla verði hverju sinni tryggð sambærileg mönnun og tíðkast á frídögum.