„Það er mjög alvarlegt að þessi stétt sé að fara í verkfall,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis um yfirvofandi verkfall lækna. Síðasta samningafundi Læknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins, sem fór fram á fimmtudag, lauk án niðurstöðu og er því ljóst að læknar munu hefja verkfall á miðnætti.
„Það er óheppilegt að missa þessa deilu við lækna út í verkfall því heilbrigðiskerfið er búið að vera undir langvarandi álagi og niðurskurði. Ég held að bæði dragi þetta úr trausti almennings á kerfinu og séu vond skilaboð inn í heilbrigðiskerfið,“ segir Sigríður. Þá segir hún það augljóst að verkfallið muni valda vandræðum innan spítalans, sem sé sú stofnun sem „á að vera í lagi í samfélaginu. Læknastéttin er ein af mikilvægustu stéttum landsins“.
Á níunda hundrað lækna samþykktu verkfallsboðun og stefnir í að flestir leggi niður störf tímabundið en þó ekki allir á sama tíma. Á þriðja hundrað lækna eru þó á sérstökum undanþágum frá verkfalli. Næsti fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður á morgun klukkan 16.
Sigríður segir það mikilvægt að Alþingi blandi sér ekki í kjaradeilur en telur að ef ekki náist samningar á morgun muni velferðarnefnd funda með landlækni og velferðarráðuneytinu út frá sjónarhorni um sjúklingaöryggi og áhrif á heilbrigðiskerfið.
„Við í velferðarnefnd höfum yfirleitt horft á svona mál út frá öryggi sjúklinga en kjaradeilan sem slík er ekki á okkar borði. Það er auðvelt að gagnrýna þegar þú ert ekki viðsemjandi en það þarf að taka þessa stöðu mjög alvarlega því starfsfólkið er orðið langþreytt.“
Þá segir hún að mikilvægt sé að líta til þess álags sem hefur verið á bæði heilbrigðiskerfið og menntakerfið síðustu ár. „Þetta eru stéttirnar sem hafa haldið öllu hér gangandi en það er ljóst að uppi er flókin staða sem þarf að leysa úr með einhverjum hætti. Ég tel að stjórnvöld eigi að gefa skýr skilaboð um að þau forgangsraði fjármunum inn í heilbrigðis- og menntakerfið.“