Afbóka tíma á heilsugæslustöðvum

Aðeins bráðatilvikum er sinnt á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðsins í dag.
Aðeins bráðatilvikum er sinnt á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðsins í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Nokkuð hefur verið um afbókanir á heilsugæslustöðvunum  í Efra-Breiðholti í Reykjavík og í Firði í Hafnarfirði í morgun. Ekki virðast allir átta sig á því að verkfall er skollið á og að verkfallsaðgerðirnar ná til heilsugæslustöðvanna og til síðdegisvaktar stöðvanna í dag og á morgun. 

Verkfall lækna í Læknafélagi Íslands hófst á miðnætti í nótt og eru læknar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins meðal þeirra sem fara fyrstir í verkfall. Þess má geta að læknavaktin á Smáratorgi er opin í dag frá 17 í dag líkt og aðra daga. 

Á þessum tíma leggja læknar á kvenna- og barnasviði Landspítala, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og rannsóknarsviði Landspítala niður störf.

Ekki meðvitaðir um verkfallið

Á heilsugæslustöðinni í Efra-Breiðholti eru að jafnaði átta læknar að störfum á virkum degi, þar af einn yfirlæknir. Í dag og á morgun mætir aðeins yfirlæknirinn til starfa og sinnir hann aðeins bráðatilfellum.

Þetta geta til dæmis verið tilvik þar sem sjúklingur kemur á stöðina með verk fyrir brjósti eða mikla kviðverki.

Að sögn Hönnu Maríu Kristjónsdóttur hjúkrunarfræðings virðist fólk ekki meðvitað um að verkfall lækna sé skollið á. Nokkuð hefur verið um afbókanir í morgun og einnig er nokkuð um að viðskiptavinir hringi og vilji panta tíma.

Hanna María tekur fram að síðdegisvaktin sé heldur ekki starfandi í dag, enda eru læknarnir sem starfa þar einnig í verkfalli. „Við sinnum bráðatilfellum en vísum öðrum frá okkur,“ segir Hanna María.

Verkfallið nær einnig til síðdegisvaktarinnar

Nokkuð hefur verið að gera á heilsugæslustöðinni í Firði í Hafnarfirði í morgun að sögn Guðrúnar Gunnarsdóttur yfirlæknis. Fullbókað var í tíma dagsins og hafa viðskiptavinir bæði komið í von um að hitta lækni eða hringt til að bóka tíma. Á stöðinni starfa að jafnaði sex læknar auk yfirlæknis.

Guðrún segir að fólk virðist ekki átta sig á því að verkfallsaðgerðir lækna ná yfir heilsugæslustöðina og síðdegisvakt stöðvarinnar.

„Öllum sem koma og eiga bókaðan tíma er vísað frá. Ef erindið getur ekki beðið, þá sinni ég því,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.  

Frétt mbl.is: Hvenær fara læknarnir í verkfall?

mbl.is