„Við munum tryggja öryggi sjúklinga meðan á verkfallinu stendur og skipuleggjum vinnuna þannig að neyðarþjónusta verði veitt,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, en á miðnætti hófust verkfallsaðgerðir lækna. Þær eru tímabundnar og munu hefjast á ólíkum tímum eftir hópum.
Um 300 læknar munu starfa á undanþágu, fyrst og fremst við það að tryggja bráðaþjónustu. Síðasti samningafundur var á fimmtudag.
Verkfall lækna hófst á miðnætti hjá læknum sem starfa á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem og víða á landsbyggðinni og gert er ráð fyrir að bókaðir tímar sem ekki eru bráðir falli niður.
Þá lagði rannsóknarsvið og kvenna- og barnasvið Landspítala einnig niður störf á miðnætti. „Þar gildir það sama og á heilsugæslunum. Þar er tiltekinn fjöldi, þar með taldir yfirlæknar, sem eru á undanþágulista og þeir sinna því í dagvinnu sem má telja brýnt,“ sagði Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is í gær. Þorbjörn sagði það þó fara eftir eðli málsins og vera í höndum hvers og eins læknis að leggja mat á það hvað má telja brýnt.
„Við getum í raun ekki skipulagt okkur nema um örfáa daga í senn. Við getum í raun lítið annað en vonað að deiluaðilar, þ.e. ríkið og læknafélagið, leysi málið,“ segir Ólafur.
Boðað hefur verið til kjarafundar í dag klukkan 16.
í auglýsingu frá Læknafélagi Íslands í Morgunblaðinu kemur fram að þetta er í fyrsta skipti sem læknar á Íslandi fara í verkfall til að knýja á um leiðréttingu launa sinna.