Biðin á eftir að valda óþægindum

Reyndir hjúkrunarfræðingar munu fara yfir stöðu hvers og eins sem …
Reyndir hjúkrunarfræðingar munu fara yfir stöðu hvers og eins sem leitar á bráðamóttökuna til að greina hvaða tilvik eru bráðatilvik og hvað má bíða. mbl.is/Árni Sæberg

Yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi gerir ráð fyrir að álag á móttökuna skelli á af fullum krafti síðdegis.

Verkfall stendur yfir hjá læknum á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins, ekki er hægt að leita á síðdegisvakt stöðvanna og því má gera ráð fyrir að álagið færist meðal annars yfir á læknavaktina í Kópavogi og á bráðamóttöku spítalans.

Bíða lengur eftir röntgenmyndum

Að sögn Hilmars Kjartanssonar, yfirlæknis á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, hefur aðsóknin farið rólega af stað í dag.

Endurkomur og pantanir á ákveðnum rannsóknum hafa þurft að bíða, enda eru læknar sem koma að röntgenmyndatökum og blóðrannsóknum í verkfalli.

„Við finnum fyrir því að sérhæfðari rannsóknir sem aðeins eru gerðar á virkum dögum eru ekki í gangi. Töluvert af fólki sem þarf að koma aftur vegna beinbrots fær ekki myndir í dag og þarf að koma síðar. Það truflar fólk, þetta er óþægilegt,“ segir Hilmar.

Álagið eykst þegar líður á daginn

Hilmar bendir á að álagið á bráðamóttökunni eigi eftir að aukast þegar líður á daginn. „Fleirum á eftir að detta í hug að mæta á bráðamóttökuna,“ segir hann og bætir við að þeir sem komi vegna minniháttar áverka eða minniháttar veikinda gætu þurft að bíða mjög lengi.

Reyndir hjúkrunarfræðingar munu fara yfir stöðu hvers og eins sem leitar á bráðamóttökuna til að greina hvaða tilvik eru bráðatilvik og hvað má bíða. „Þetta á eftir að vanda einhverjum óþægindum. Ég geri ekki ráð fyrir að allir verði jafn ánægðir,“ segir Hilmar.  

„Það er þungt hljóð í fólki, enginn er ánægður með að við séum komin í verkfall. Við vonum að það fari að þokast í samningaátt áður en það verður meiri þungi í þessu,“ segir Hilmar.

Hefur þú lent í vandræðum í dag eða síðustu daga í tengslum við verkfallsaðgerðir lækna? Ef svo er, endilega sendu okkur ábendingu á netfrett@mbl.is. 

mbl.is