Fresta mjaðma- og hnéaðgerðum

Læknar sem sinna sjúklingum sem liggja á deildum HVE fengu …
Læknar sem sinna sjúklingum sem liggja á deildum HVE fengu undanþágu til að sinna þeim í dag og á morgun. Gunnlaugur Árnason

Mjaðma- og hnéaðgerðir sem framkvæma átti á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi í dag falla niður. Valaðgerðir falla niður þar sem svæfingalæknar eru meðal þeirra lækna sem eru í verkfalli og fara sjúklingar sem áttu að gangast undir aðgerð því nokkuð aftar í röðina. 

Fyrsti hluti verkfallsaðgerða lækna í Læknafélagi Íslands hófst á miðnætti í nótt eru læknar á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja meðal þeirra sem leggja niður störf til miðnættis annað kvöld. 

Höfðu ekki hugmynd um verkfallið

Að sögn Ásgeirs Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra fjármála hjá HVE á Akranesi, fellur öll móttaka á heilsugæslustöðinni niður í dag en yfirlæknir sinnir bráðatilfellum líkt og á kvöldin og um helgar. Þá fellur endurnýjun fastra lyfja einnig niður. 

Ásgeir segir að nokkrir hafi haft samband við heilsugæslustöðina í morgun og ekki haft hugmynd um að verkfallið væri skollið á, eða að það hefði áhrif á heilsugæslustöðina.

Haft var samband við alla þá sem áttu bókaðan tíma hjá lækni á heilsugæslustöðinni í dag á föstudaginn og þeir beðnir að fylgjast grannt með fréttum af verkfallinu. Þá verður einnig haft samband við þá sem eiga tíma á morgun. 

Fengu undanþágu til að sinna sjúklingum á deildum

Læknar sem sinna sjúklingum sem liggja á deildum HVE fengu undanþágu til að sinna þeim í dag og á morgun. Ásgeir segir að greinilegt sé að verkfall standi yfir, mun færri hendur vinni þau verk sem þarf að vinna.

Þeir sem áttu bókaðan tíma í skurðaðgerð og missa af henni í dag eða á morgun vegna verkfallsaðgerðanna fá nýjan tíma. Þeir þurfa þó líklega að bíða í nokkra daga til viðbótar þar sem þeir fara ekki fremst í röðina. 

Hér má sjá upplýsingar um þá röskun sem verður á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands vegna verkfallsaðgerða lækna í Læknafélagi Íslands. 

Mjaðma- og hnéaðgerðir sem framkvæma átti á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á …
Mjaðma- og hnéaðgerðir sem framkvæma átti á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi í dag falla niður Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is