Fresta tugum aðgerða á Landspítalanum

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Tugum aðgerða hefur verið frestað á Landspítalanum í dag en verkfallsaðgerðir tuga lækna á rannsóknar-, kvenna- og barnasviði spítalans hófust á miðnætti í nótt og standa yfir til miðnættis annað kvöld.

Ljóst er að verkfallið hefur mikil áhrif, en bráðaþjónustu við sjúklinga er vissulega sinnt.

Álagið viðráðanlegt frá miðnætti

„Eins og við höfum sagt þá er þetta mjög sérkennilegt andrúmsloft, þetta hefur ekki gerst áður,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, aðspurður um stemninguna á spítalanum í dag.

Í dag er fyrsti dagur verkfallsaðgerða lækna í Læknafélagi Íslands en þetta er jafnframt í fyrsta skipti sem læknar á Íslandi fara í verkfall. Fresta hefur þurft tugum aðgerða á spítalanum í dag en það kemur einna helst til vegna verkfalls lækna á rannsóknarsviði spítalans.

Ólafur bendir á að bráðaþjónustu deildanna þriggja sé sinnt og álagið á hafi verið viðráðanlegt í dag. Bráðamóttaka barna er opin og þá er bráðaþjónustu kvennadeildar einnig sinnt.

Mikil röskun á biðlistum

Að sögn Ólafs hafa verkfallsaðgerðirnar í för með sér mikla röskun á vinnulistum og biðlistum. Sjúklingarnir sem missa sinn tíma, hvort sem það er tími í aðgerð eða annað, munu fá annan tíma.

Þó er ljóst að einhverjir muni þurfa að bíða í nokkra daga eða jafnvel lengur eftir öðrum tíma.

Framkvæmdastjórn spítalans hittist á hverjum degi og fundar um málið. „Þetta er vandamál sem er það flókið að það þarf að taka á því strax,“ segir Ólafur.

Hér má lesa nánar um áhrif verkfallsaðgerðanna á rannsóknar-, barna- og kvennasviði Landspítalans. 

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is