Íhuga að hætta að beita dauðarefsingu fyrir fjársvik

AFP

Yfirvöld í Kína íhuga nú að gera breytingu á refsilöggjöfinni á þann hátt að dauðarefsingum verði fækkað. Í dag er dauðarefsingu beitt í 55 tegundum sakamála en nú er til skoðunar að breyta refsiramma níu þeirra á þann hátt að þeir sem eru sakfelldir fyrir þessi brot séu ekki teknir af lífi. Má þar nefna fjársvik. Hvergi í heiminum eru jafnmargir teknir af lífi fyrir glæpi og í Kína. 

Í öllum níu tilvikunum er um að ræða glæpi sem ekki eru ofbeldistengdir. Má þar meðal annars nefna vopnasmygl, smygl á skotfærum eða kjarnorkubúnaði, peningafölsun og fjársöfnun sem byggist á svikum.

Aftökur í efnahagsbrotum hafa verið harkalega gagnrýndar í Kína þar sem einkafyrirtæki eiga oft í erfiðleikum með að fá lán í bönkum sem eru flestir ríkisreknir. 

Í fyrra var kaupsýslumaðurinn Zheng Chengjie tekinn af lífi af aftökusveit og var fjölskylda hans ekki látin vita af aftökunni fyrirfram. En hann var dæmdur fyrir fjársvik upp á 460 milljónir Bandaríkjadala.

Eins var tæplega fertug kaupsýslukona tekin af lífi í fyrra fyrir að hafa svikið út um 70 milljónir Bandaríkjadala.

Alls voru um 2.400 teknir af lífi í Kína í fyrra en fyrir áratug voru aftökurnar um 10 þúsund talsins. Ekki er upplýst um það opinberlega hversu margir nákvæmlega eru teknir af lífi árlega í Kína.

mbl.is