Samningar náðust ekki á fundi deiluaðila í kjarabaráttu lækna hjá Ríkissáttasemjara í dag en verkfall lækna hófst á miðnætti.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands segir að ekki hafi verið búist við að samningar næðust. „Við höfum ekki viljað fara út í einstakar tölur en við drögum engan dul á það að við erum að fara fram á umtalsverðar launahækkanir,“ segir Þorbjörn um kröfur lækna. Hann segir samninganefnd ríkisins ekki enn hafa komist nálægt þeim kröfum í samningaumleitunum síðastliðnar vikur.
Þorbjörn segir að fyrsti dagur verkfallsins hafi að gengið að mestu hnökralaust fyrir sig sem sé ánægjulegt en tekur fram að læknar séu auðvitað allt annað en ánægðir með að vera í verkfalli.
„Ég ræddi við verkfallsverði á Landsspítalanum í dag og þeir fengu bara klapp á bakið og góð orð frá sjúklingum sem þeir hittu á göngum spítalans,“ segir Þorbjörn um viðbrögð sjúklinga við verkfallinu en óvenjumikið álag hefur verið á bráðamóttöku og læknavakt í dag.
Næst verður fundað um málið á miðvikudaginn en Þorbjörn segist í sjálfu sér ekki bjartsýnn fyrir skjótri úrlausn. „Við vonum náttúrulega að þetta leysist sem fyrst. Það er auðvitað óþægilegt og sorglegt að við séum í þessari stöðu, við erum ekki vön því,“ segir Þorbjörn og vísar til þess að læknar hafi aldrei farið í fullt verkfall áður.
„Að mér vitandi hefur aldrei komið til tals að nota verkfallsréttinn áður en staðan er alvarlegri en hún hefur verið nokkru sinni.“
Þorbjörn segir helstu ástæðu þess að læknar hafi valið að nota verkfallsrétt sinn nú vera þá að laun þeirra hafi dregist umtalsvert aftur úr síðastliðin ár. Hann segir samanburðinn við það sem læknum býðst annars staðar vera það óhagstæðan að íslensk laun séu hreint ekki samkeppnishæf að neinu leiti.
„Atgervisflóttinn sem hefur staðið yfir undanfarin ár er afleiðing af þessu og það er erfitt að sjá að það sé hægt að snúa honum við nema með því að bæta kjörin.“