„Það er talsvert álag og erum við í svolitlum vandræðum. Það liggja margir á gangi og við höfum illa undan með flæðið,“ segir Svanur Sigurbjörnsson, stjórnandi læknir á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, í samtali við mbl.is en nú stendur yfir verkfall hjá læknum á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins.
Færist álagið því m.a. yfir á Læknavaktina í Kópavogi og bráðamóttöku spítalans.
Að sögn Svans er bráðamóttakan nú nánast yfirfull af fólki, en síðastliðnar 24 klukkustundir hafa 100 sjúklingar sótt deildina heim. Sömu sögu er að segja um biðstofu bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi en þar bíða nú fjölmargir þess að fá tíma með lækni. „Við erum að finna fyrir þessu, það er ekki spurning.“
Svanur segir aðsóknina nú óvenjumikla, en venjuleg mönnun er þó á bráðamóttökunni þar sem verkfallsaðgerðir lækna ná ekki til þeirrar starfsemi sem þar fer fram.
Aðspurður segir hann nokkuð gott hljóð vera í bæði starfsmönnum og sjúklingum þrátt fyrir mjög annasaman dag.
„Við finnum bara fyrir almennum stuðningi. Fólk virðist ekki vera að stressa sig neitt sérstaklega yfir þessu,“ segir Svanur.
Hefur þú lent í vandræðum í dag eða síðustu daga í tengslum við verkfallsaðgerðir lækna? Ef svo er, endilega sendu okkur ábendingu á netfrett@mbl.is.