Álag og bið eftir þjónustu

Mikill erill var á læknavaktinni í Kópavogi og náði röð …
Mikill erill var á læknavaktinni í Kópavogi og náði röð þeirra sem þurftu á læknisþjónustu að halda langt út fyrir biðstofuna. mbl.is/Árni Sæberg

Mikið álag var á bráðamóttöku Landspítalans og læknavaktinni í Kópavogi þar sem neyðarþjónustu var sinnt vegna verkfallsaðgerða lækna. Lágmarksstarfsemi var á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni, sem og á kvenna- og barnadeild og á rannsóknarsviði Landspítala (LSH).

Löng bið var eftir þjónustu og álag á þeim læknum sem sinntu starfseminni mikið. „Það er talsvert álag og við erum í svolitlum vandræðum. Það liggja margir á gangi og við höfum illa undan með flæðið,“ segir Svanur Sigurbjörnsson, læknir á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, sem stýrði vakt í gær.

Kjarafundur var haldinn síðdegis í gær en lítið þokaðist í átt til sátta. „Þetta var klukkutíma fundur og á honum voru viss tæknileg atriði samningsins rædd en við komumst þó ekkert lengra með neinar launakröfur svo þetta var árangurslaust,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélags Íslands.

Fyrsta lið verkfallsaðgerða lýkur á miðnætti og þá munu læknar á heilsugæslum og deildum LSH taka til starfa að nýju. Á morgun hefja læknar á lyflækningasviði spítalans og á Sjúkrahúsinu á Akureyri verkfallsaðgerðir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina