Um 800 skurðaðgerðir munu falla niður á aðgerða- og skurðlækningasviði Landspítalans ef læknar þar fella niður störf eins og þeir hafa boðað fram til 11. desember.
Við þetta munu bætast aðgerðir sem gjarnan eru gerðar á lyflækningasviði, t.d. hjartaþræðing og magaspeglun. Fimm þræðingar og níu speglanir féllu niður í gær vegna þessa.
Í umfjöllun um læknadeiluna og áhrif hennar í Morgunblaðinu í dag segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, hugsanlegt að fleiri aðgerðir falli niður þegar áhrifin af verkfalli lækna á rannsóknasviði komi að fullu fram, þ.e.a.s. aðgerðir sem ella hefði mögulega verið hægt að gera en hætt verður við vegna þess að skurðlæknar og lyflæknar telja sig mögulega þurfa þjónustu rannsóknasviðs.