Biðtími lengri á bráðamóttökunni

Mikið var að gera á bráðamóttöku Landspítalans í nótt.
Mikið var að gera á bráðamóttöku Landspítalans í nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Mikið var að gera á bráðamóttöku Landspítalans í nótt. Verkfallsaðgerðir lækna í Læknafélagi Íslands hófust á ný á miðnætti og lögðu læknar á flæðisviði og aðgerðasviði niður störf. Ekki verða gerðar skipulagðar valaðgerðir á spítalanum næstu fjóra daga.

Bráðatilvikum á bráðamóttöku verður sinnt en biðtími fyrir þá sem hafa minniháttar áverka eða veikindi verður hugsanlega lengri. 

Bráðamóttaka, endurhæfingardeildir, öldrunardeildir og fleira heyrir undir flæðisvið spítalans en á aðgerðasviði er gjörgæslan, skurðstofur, speglanir, svæfing, blóðbanki og fleira.

Biðtími vegna minni áverka lengri

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum verður bráðatilvikum á bráðamóttöku sinnt en biðtími fyrir þá sem hafa minniháttar áverka eða veikindi gæti lengst.

Þá falla bókaðar endurkomur á bráða- og göngudeild niður. Gert er ráð fyrir þetta muni hafa mikla röskun í för með sér fyrir fólk. Þetta eru meðal annars sjúklingar sem hlotið hafa beinbrot og þurfa að koma aftur í eftirlit.  

Hafa miklar áhyggjur af vikunni

Stjórnendur spítalans hafa miklar áhyggjur af vikunni sem verður líklega þyngri en síðasta vika þar sem allt bendir til þess að skurðlæknar leggi einnig niður störf á morgun.

Undir aðgerðasvið, annað þeirra sviða sem verkfallið nær til í dag, heyra einnig svæfingalæknar. Því er ljóst að ef félögin tvö semja ekki í vikunni, verða ekki gerðar skipulagðar valaðgerðir í fjóra sólarhringa á spítalanum. 

Óvenju fáar aðgerðir höfðu verið skipulagðar í síðustu viku og því var ef til vill minni röskun en hefði getað orðið, líklega þarf að flesta fleiri aðgerðum í þessari viku.

Frétt mbl.is: Mikil röskun á starfseminni

mbl.is