Tugir sjúklinga komast ekki í fyrirhugaðar aðgerðir á Landspítalanum í dag vegna verkfalls lækna. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hefur þurft að fella niður 32 skurðaðgerðir á Landspítalanum í dag en nú stendur yfir verkfall lækna á flæði- og aðgerðarsviði. Jafnframt er fyrirséð að fjöldi dag- og göngudeildakoma falli niður í dag vegna verkfallsins.
Bráðamóttaka, endurhæfingardeildir, öldrunardeildir og fleira heyrir undir flæðisvið spítalans en á aðgerðasviði er gjörgæslan, skurðstofur, speglanir, svæfing, blóðbanki og fleira.
Ekki verða gerðar skipulagðar valaðgerðir á spítalanum næstu fjóra daga. Bráðatilvikum á bráðamóttöku verður sinnt í dag en biðtími fyrir þá sem hafa minniháttar áverka eða veikindi verður hugsanlega lengri.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum eru 39 læknar af 45 á aðgerðarsviði í verkfalli í dag. Jafnframt eru 16 læknar á flæðisviði í verkfalli.
Eins og mbl.is sagði frá um helgina þurfti að fella niður um 500 dag- og göngudeildarkomur, fresta 56 skurðaðgerðum sem og tugum rannsókna og meðferða, m.a. hjartaþræðingum og speglunum vegna verkfallsaðgerðum lækna í síðustu viku.
Hefur verkfall lækna haft áhrif á þína læknismeðferð? Sendu okkur ábendingu á netfrett@mbl.is eða hringdu í síma 569-1200.