Hafa áhyggjur af læknafæð

Foreldrar langveikra barna eru áhyggjufullir vegna fækkunar lækna.
Foreldrar langveikra barna eru áhyggjufullir vegna fækkunar lækna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nei, það hefur reyndar ekki gerst ennþá að neinn hafi leitað sérstaklega til okkar en við höfum verið í hópi sjúklingasamtaka sem hefur verulegar áhyggjur,“ segir Ragna K. Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Umhyggju, félags til stuðnings langveikum börnum, spurð að því hvort skjólstæðingar félagsins hafi leitað til þess vegna læknaverkfallsins.

Ragna segir hins vegar, líkt og fleiri talsmenn sjúklingasamtaka, að fólk hafi áhyggjur af stöðu heilbrigðiskerfisins almennt.

„Það sem við höfum kannski helst heyrt í hópi okkar skjólstæðinga, sem eru foreldrar langveikra barna, eru gríðarlegar áhyggjur af því hvað það eru fáir læknar eftir. Það er þar sem við finnum fyrir því að foreldrar eru óöruggir og ef eitthvað kemur uppá þá er læknirinn minn kannski bara í útlöndum og kemur ekki fyrr en eftir þrjár vikur og það er einhver annar sem þarf að taka þetta að sér á meðan. Þannig að það gætir óöryggis meðal foreldra sem eiga þessi mikið veiku börn sem eru mjög háð þjónustu barnaspítalans,“ segir hún.

Ragna segir lækna barnanna yfirleitt sérfræðinga, sem margir hverjir starfi einnig erlendis. Hvað læknaverkfallið varðar segist hún hins vegar ekki í vafa um að fyllsta öryggis sé gætt hvað varðar umönnun sjúklinga.

Eiga erfitt með að ná í lækni

Guðríður Ólafs- og Ólafíudóttir, félagsmálafulltrúi hjá Öryrkjabandalagi Íslands, segir öryrkja áhyggjufulla vegna verkfallsins. Hins vegar sé það enn meira uggandi vegna síhækkandi kostnaðar.

„Það er það sem fólk hefur áhyggjur af, að komast ekki til læknis og eiga ekki fyrir lyfjunum sínum. Og ég veit að Hjálparstofnun kirkjunnar hefur verið að aðstoða fólk við lyfjakaup,“ segir hún.

Guðríður segir fólk þó harla rólegt miðað við ástandið.

Sjúklingar hafa miklar áhyggur af stöðu heilbrigðiskerfisins.
Sjúklingar hafa miklar áhyggur af stöðu heilbrigðiskerfisins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is