60% lækna er yfir fimmtugt

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Meginvandamál íslenska heilbrigðiskerfisins um þessar mundir er hve illa gengur að manna stöður lækna. Aðalástæða þess er að kjör hér á landi eru engan veginn samkeppnishæf við það sem býðst í nágrannalöndum okkar. Úr því þarf að bæta og um það snýst kjarabarátta lækna.“

Svona kemst Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, að orði í grein sinni sem birtist í nýjasta eintaki Læknablaðsins, Vá fyrir dyrum í heilbrigðiskerfinu.

Í grein sinni rifjar Þorbjörn upp síðustu kjaraaðgerðir lækna á níunda áratugnum. Sögðu þá stórir hópar  lækna upp störfum til að knýja á um bætt kjör og stóðu aðgerðir læknanna þá í einn mánuð áður en samkomulag náðist við ríkisvaldið. „Með breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna árið 1986 fengu læknar formlega verkfallsrétt, þótt hann sé vissulega takmörkunum háður. Læknar hafa ekki kosið að beita þessum rétti sínum fyrr en nú,“ segir Þorbjörn í greininni.

Þorbjörn segir jafnframt að nýliðun meðal lækna sé algerlega ófullnægjandi. Bendir hann á að strax í kjölfar efnahagshrunsins 2008 fækkaði læknum á Íslandi um allt að 10%. 

„Síðan hefur enn frekar sigið á ógæfuhliðina hvað varðar mönnun og þar með vinnuálag hjá læknum. Yngri sérfræðilæknar sem lokið hafa sérnámi erlendis hafa ekki verið reiðubúnir að flytjast til Íslands í nægilega miklum mæli. Í þessu sambandi má jafnvel tala um hrun í nýliðun lækna,“ segir Þorbjörn og vísar í töflu í grein sinni.

Í töflunni má sjá að nærri  60% lækna eru yfir fimmtugt og liðlega fjórðungur lækna er á sjötugsaldri. Jafnframt var meðalaldur sérfræðilækna árið 2013 var 55-56 ár og að sögn Þorbjörns hefur hækkun meðalaldursins verið um hálft ár á ári hverju að undanförnu.

„Ef launakjörin batna ekki nægilega mikið til að fullmenntaðir yngri sérfræðilæknar búsettir erlendis vilji flytjast heim og þjóna í íslenska heilbrigðiskerfinu erum við í djúpstæðum vanda. Á honum verður að taka strax,“ segir Þorbjörn.

Grein Þorbjörns í heild sinni má sjá hér.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
mbl.is