„Enginn læknir vill fara í verkfall“

mbl.is/Ómar

„Þetta er hópur af íslenskum læknum sem eru staddir á mismunandi stigum. Einhverjir búa á Íslandi og einhverjir í útlöndum. Við eigum það þó öll sameiginlegt að hafa verið áberandi í baráttu fyrir bættum kjörum og vinnuaðstæðum og síðan var stofnuð til að koma okkar sjónarmiðum og sannleikanum á framfæri,“ segir Sigurveig Margrét Stefánsdóttir, læknir, en hún er ein þeirra sem standa á bakvið Facebook-síðuna „Raddir íslenskra lækna“ sem stofnuð var í síðustu viku.

Síðan hefur fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð að sögn Sigurveigar og eru 5.873 búnir að líka við síðuna.

„Við vildum einnig leiðrétta ýmsan misskilning og mýtur varðandi laun og aðbúnað og annað slíkt. Við vildum bæði geta komið okkar sjónarmiðum á framfæri og svarað spurningum almennings. Við höfum eingöngu fengið jákvæð viðbrögð frá almenningi og það verður að segjast að það hefur komið okkur eilítið á óvart,“ segir Sigurveig sem viðurkennir að hópurinn hafi alveg eins búist við einhverri gagnrýni frá almenningi.

„En ég held að almenningur sé farinn að finna fyrir því hvernig aðstæðurnar eru í heilbrigðiskerfinu og það er kominn skilningur á þetta líka.“

Það að það kom til verkfalls yfir höfuð kom Sigurveigu á óvart. „Ég er mjög undrandi á því að stjórnvöld hafa látið þetta ganga svona langt og núna mun róðurinn bara þyngjast. Þetta hefur keðjuáhrif á allt kerfið.“

Sigurveig er læknir á geðsviði Landspítalans þannig að hún mun fara í verkfall á morgun og fimmtudag. Hún segir að það sé mjög erfitt fyrir lækni að leggja niður störf. 

„Það er enginn læknir sem vill fara í verkfall. Við erum mjög sorgmædd yfir því hversu langt þetta hefur gengið,“ segir Sigurveig en bendir á að verkfallið hafi verið nauðsynlegt.

„Ég held að almenningur sjái alveg hvað þarf að gera til að hindra landflótta lækna og að allt molni undir okkur. Það er það sem maður óttast að langvarandi verkfall leiði af sér.“

Raddir íslenskra lækna

mbl.is