Fara 10-15 ár aftur í tímann

Hjartasjúkdómar.
Hjartasjúkdómar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á milli tíu og fimmtán íslenskir læknar hafa lokið eða eru að ljúka sérnámi í myndgreiningu erlendis. „Enginn þessara lækna er væntanlegur heim á næstunni svo að ég viti,“ segir Maríanna Garðarsdóttir yfirlæknir á röntgendeild Landspítala. Hún segir myndgreiningu falda sérgrein sem gegni lykilhlutverki í nútímalæknisfræði.

Rætt er við Maríönnu í nýjasta hefti Læknablaðsins. Hún tekur fram að vissulega séu ekki allir læknar sem velji að starfa erlendis, til dæmis hafi fimm læknar sem luku sérnámi í myndgreiningu skilað sér til Íslands frá árinu 2008. Á sama tíma hafi hins vegar setnum stöðum sérfræðilækna á röntgendeild Landspítala fækkað um þriðjung og fjöldi rannsókna aukist, þannig að færri læknar sinna meiri vinnu, með tilheyrandi álagi.

Það gefur auga leið að slíkt gengur ekki lengi, álagið er mikið og kennsla og rannsóknir ásamt þjálfun sérnámslækna sitja á hakanum. Aðrar stofnanir, svo sem röntgendeildin á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins, eru einnig í miklum vanda og er mikil þörf fyrir röntgenlækna þar,“ segir Maríanna.

Hún segir það ekki aðlaðandi fyrir lækna að snúa aftur heim. Launin séu ekki sambærileg við önnur lönd og allt að helmingi lægri. Þá hjálpi ekki að  vinnuaðstaðan er ekki góð og tækjakostur lélegur. „Ungir sérfræðingar vilja ekki koma heim í aðstæður sem setja þá 10-15 ár aftur í tímann, þegar tæki og tækni sem þykir eðlilegt að hafa til bestu þjónustu við sjúklinga er ekki til staðar.“

Viðtalið við Maríönnu í heild

mbl.is