Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefst á morgun, 5. nóvember, og stendur til og með 9. nóvember. 219 tónlistarmenn eða hljómsveitir koma fram á hátíðinni á 250 tónleikum í miðborg Reykjavíkur sem fara fram á 12 tónleikastöðum og því til viðbótar verða haldnir hvorki meira né minna en 674 frítónleikar á hinni sk. „off-venue“-dagskrá sem fram fer á ýmsum stöðum um borgina, 52 talsins, og eru þar á meðal veitingastaðir, kaffihús og hótel. Hefur sú dagskrá aldrei verið viðburðaríkari en í ár.
Heimskunnar hljómsveitir og tónlistarmenn í bland við minni spámenn koma fram á hátíðinni sem lýkur með stórtónleikum í Vodafonehöllinni 9. nóvember, en þá leika The War on Drugs og The Flaming Lips. Síðarnefnda sveitin þykir ein besta tónleikasveit heims og eru tónleikar hennar bæði mikið sjónarspil og tónlistarveisla.
Blaðamaður ræddi við Grím Atlason, framkvæmdastjóra hátíðarinnar, og spurði hann fyrst hinnar sígildu spurningar: Hvað ber hæst á hátíðinni í ár, hver eru stóru trompin? „Það fer bara eftir því hvernig maður lítur á það, það er auðvitað magnað að The Knife sé að spila á Íslandi í fyrsta skipti og líka það að þau séu væntanlega að hætta eftir tónleikana hér. Það er auðvitað stórmagnað, ekki það að ég vilji að þau hætti en fyrst þau ákváðu að hætta er fínt að þau hætti hér,“ segir Grímur. „Við erum með flotta risatónleika líka í Vodafonehöllinni með The War on Drugs og The Flaming Lips. War on Drugs er frábært band sem er búið að gefa út frábærar plötur, síðustu tvær eru æðislegar og Flaming Lips eru með því besta sem gerist í „live“ bransanum, gaman á tónleikum með þeim og gaman að enda með hvelli,“ segir Grímur.
Af öðrum frábærum tónleikum nefnir hann tónleika stuðsveitarinnar FM Belfast og tónleika Jóhanns Jóhannssonar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg þar sem flutt verður tónlist Jóhanns við kvikmynd Bills Morrisons, The Miners' Hymns, sem sýnd verður á tjaldi; tónleika Önnu Calvi sem Grímur segir stórkostlega og tónleika Ásgeirs okkar Trausta sem hefur gert það gott á erlendri grundu. „Þessi 67 útlendu bönd eru frábær og svo erum við með rjómann af þessu íslenska, 152 hljómsveitir,“ segir Grímur.
- Þið endið þetta með stórtónleikum eins og hefð er orðin fyrir. Flaming Lips er rótgróin og vinsæl, búin að vera að í rúm 30 ár, í fyrra var það Kraftwerk, Sigur Rós árið 2012 og Björk 2011. Hvers vegna farið þið þessa leið, að tefla fram svona frægum hljómsveitum og tónlistarmönnum á lokatónleikum í stað yngri og upprennandi?
„Við erum auðvitað með fimm daga hátíð og með mjög stóra tónleika á þeim öllum þar sem við gefum hljómsveitum tækifæri á að koma fram. Í sjálfu sér má segja að fyrsta árið vildi ég loka þessu og þá var það FM Belfast og Dan Deacon á Nasa, húsið bauð upp á það en ekki upp á neitt stærra. Síðan prófuðum við Björk með sérstakt verkefni og Sigur Rós með öðruvísi nálgun og kannski enginn möguleiki á að gera það öðruvísi en þarna, nákvæmlega í þessu konsepti. Eins var með Kraftwerk, það var ekki möguleiki að gera það á Íslandi nema af því að við vorum inni í því og Airwaves gat haldið utan um það. Það er auðvitað það sem við getum boðið upp á, ólíkt öðrum, við náum því og að gera það með svona hljómsveitum. Það er von mín að þetta séu ekki þreyttar og sveittar hljómsveitir,“ segir Grímur kíminn. Hátíðarhaldarar vilji enda Airwaves með skemmtilegum hvelli. „200 af þessum hljómsveitum eru í raun bara að byrja,“ segir Grímur um dagskrána.
- Hvernig fer valið fram á hátíðina? Þú ferð auðvitað á hátíðir erlendis en eruð þið með einhverja menn á hátíðum úti sem eru að skoða hljómsveitir fyrir ykkur?
„Við sem vinnum við Airwaves gerum lista í lok árs með okkar hugmyndum, hvað okkur finnst skemmtilegt og síðan ferðumst við um og sjáum þetta og hitt. Síðan erum við líka í samstarfi við umboðsmenn sem við þekkjum og fáum uppástungur frá þeim. Þetta fer allt saman í gegn hérna hjá okkur og við hlustum á tónlistina, vitum hvaðan hún er að koma og vitum af hljómsveitunum, fylgjumst með þeim og sjáum þær vonandi flestar eða reynum það,“ segir Grímur. Það takist ekki alltaf að fá hljómsveitirnar á óskalistanum, það geti t.d. verið of dýrt. „Þótt við þekkjum ekki hljómsveitirnar en heyrum af þeim og finnst þær flottar þá reynum við alltaf að skoða þær. Við erum ekki föst í því að einhver sé búinn að viðurkenna þær,“ segir Grímur.
- Fylgið þið ákveðinni stefnu hvað tónlistina varðar á hátíðinni? Nú eru t.d. frekar fáir hip hop-tónlistarmenn á hátíðinni í ár?
„Við vorum með Young Fathers í fyrra og þeir unnu Mercury-verðlaunin í ár. Það er mjög flott hip hop þannig að við erum oft með á nótunum, þetta fer bara eftir því hvað er í gangi á hverjum tíma,“ segir Grímur og bætir við að oft séu vinsælir hip hop-listamenn einfaldlega of dýrir fyrir hátíðina, það kosti of mikið að fá þá til að koma fram á henni. Margir frábærir hip hop-tónlistarmenn hafi samt sem áður komið fram á hátíðinni hin síðustu ár. Hátíðin sé ekki einskorðuð við ákveðnar tónlistartegundir eða -stefnur eins og sjá megi af fjölbreytninni.
- Nú hefur tónlistarhátíðum á Íslandi fjölgað, Sónar, All Tomorrow's Parties og Secret Solstice hafa bæst við. Finnið þið fyrir mikilli samkeppni við þær eða er þetta samkeppni yfirleitt?
„Á Íslandi búa 320 þúsund hræður og árið 2009 voru einir tónleikar með erlendum tónlistarmanni, fyrir utan Iceland Airwaves. Það var Jonathan Richman sem ég flutti inn áður en ég tók við Airwaves. Þegar það eru fleiri viðburðir í gangi sem uppfylla þessa tónlistarþörf þá hefur það auðvitað alltaf einhver áhrif, jákvæð og neikvæð,“ svarar Grímur. Hátíðirnar séu oft skipulagðar af fólki sem hafi unnið áður við Iceland Airwaves. „Við eigum í ágætu samstarfi við þessar hátíðir, við reynum ekki að setja stein í götu þeirra. En það er mikilvægt að þetta lukkist, það er engum í hag ef hátíðir fara illa eða selja fáa miða,“ segir Grímur. Ef tónlistarhátíð á Íslandi fari mjög illa, ef upp komi einhver vandræði, finni Airwaves fyrir því líka. „Við viljum að menn fari varlega til þess að það skemmi ekki fyrir hinum. Aftur á móti höfum við algerlega hvatt menn og veitt góð ráð þegar sóst er eftir þeim.“
Grímur segir frábært að mörgu leyti að komnar séu nýjar og öflugar tónlistarhátíðir. „Þeir sem vinna í þessum bransa verða líka betri, vinna aftur og aftur að viðburðum sem gerir það að verkum að fagmennskan eykst með hverju ári.“
Og skipulagið virðist gott á Iceland Airwaves, tónleikar hefjast yfirleitt á auglýstum tíma en Grímur segir að eitthvað óvænt geti þó alltaf komið upp á, tölvur bilað og fleira þess háttar. Allir listamenn hátíðarinnar fari í hljóðprufur til að tryggja að hljómur verði betri á tónleikunum og að skiptingar gangi betur. Því fylgi aukinn kostnaður en skili sér í betri hátið.
Miðar á hátíðina seldust upp fyrir mánuði og segir Grímur að fleiri miðar hafi verið seldir nú en í fyrra. „Við erum með 9.000 manns með armbönd og það eru þá bæði listamenn og gestir,“ segir Grímur. Í fyrra voru það 8.200 og segir Grímur ástæðu fjölgunarinnar að tónleikarými hafi stækkað milli ára. Gamla bíó taki t.d. fleiri í sæti og Gaukurinn og Húrra séu stærri staðir en þeir voru í fyrra. Hvað hlutfall innlendra og erlendra gesta varðar segir Grímur að erlendir gestir í ár séu nú um 5.000 og innlendir um 4.000. Það sé lenska hjá Íslendingum að bíða of lengi með að kaupa sér miða og því komist alltaf færri en vilji á hátíðina.
Þessi mikli fjöldi erlendra gesta sýnir að hátíðin er orðin vel þekkt utan landsteinanna og segir Grímur að hátíðin eigi í samstarfi við nokkrar erlendar hátíðir, m.a. Reeperbahn og Great Escape. Útflutningsmiðstöð íslenskrar tónlistar, ÚTÓN, er rekstraraðili Airwaves, framselur hátíðina til IA Tónlistarhátíðar sem sér um framkvæmd hennar og er í eigu ÚTÓN og segir Grímur að ÚTÓN fái að nota nafn Airwaves á erlendum tónlistarviðburðum. „Það er svalara en Útflutningsmiðstöð íslenskrar tónlistar,“ segir hann kíminn. Nafnið hjálpi líka þeim tónlistarmönnum sem komi fram erlendis á vegum ÚTÓN á Airwaves-viðburðum.
- Ertu farinn að bóka hljómsveitir fyrir næsta ár?
„Ég er að vinna í því, já. Í október í fyrra lögðum við drög að tónleikum Flaming Lips og í september 2012 lögðum við drög að tónleikum Kraftwerk,“ segir Grímur. Fljótlega haldi hann til Lundúna að hitta umboðsmenn og reyni að ganga þar frá bókunum. Næst á dagskrá sé hins vegar tónlistarhátíð í Montreal í nóvember. Þegar nær dregur jólum ætlar Grímur hins vegar að taka sér kærkomið frí, fara til Bolungarvíkur með fjölskyldunni og „jólast eitthvað þar“, eins og hann orðar það.