Þurfti að vísa frá 15% sjúklinga

Mikið álag myndaðist um miðjan daginn í gær á bráðamóttöku Landspítalans en þar stendur nú yfir verkfall lækna. Að sögn Hilmars Kjartanssonar, yfirlæknis, er ásóknin á deildina að þyngjast aftur núna rétt fyrir hádegið.

„Upp úr miðjum degi í gær, um fjögur eða fimm leytið var farið að vera mjög þungt á deildinni. Við höfðum samband við undanþágunefnd til þess að hafa aðila í startholunum ef ástandið myndi fara á hættustig hvað öryggi sjúklinga varðar. En svo dró úr aðsókninni og allt hélst rólegt alveg þangað til í morgun. Núna er aðeins farið að þyngjast aftur.“

Sex læknar í stað níu

Að sögn Hilmars eru sex læknar vinnandi á deildinni í dag. Læknir sem átti að koma til vinnu í morgun er í verkfalli sem og tveir læknar sem áttu að mæta á hádegi. „Þannig að eftir klukkan tólf vantar þrjá lækna á vaktina, það munar svo sannarlega um það,“ segir Hilmar. 

Hann segir jafnframt að hann telji að langflestir séu meðvitaðir um að verkfall sé í gangi. 

„Það var góður fréttaflutningur af þessu í gær og fólk er meðvitað. Ég hef það á tilfinningunni að margir séu að forðast að koma og vilji frekar harka af sér og koma frekar á morgun. Ég geri alla vega ráð fyrir því að það verði nóg að gera hérna á morgun,“ segir Hilmar sem bætir við að það sé þó ekki endilega gott. 

Hefur áhyggjur af eldri einstaklingum

„Ég hef sérstaklega áhyggjur af eldri einstaklingum sem koma ekki því þeir vilja ekki ónáða eða láta fyrir sér hafa. Ég hef áhyggjur að sá hópur haldi sig heima en þyrfti að vera að koma.“

Að sögn Hilmars var 15% þeirra sem komu á bráðamóttökuna í gær vísað frá. „Þeirra vandamál var ekki það brátt að það þyrfti að afgreiða það samdægurs og á bráðamóttökunni og var þeim því vísað annað. En það er alveg gífurlegur fjöldi.“

mbl.is