139 læknar mæta ekki til vinnu

Verkföll lækna í Læknafélagi Íslands og Skurðlæknafélagi Íslands standa enn …
Verkföll lækna í Læknafélagi Íslands og Skurðlæknafélagi Íslands standa enn yfir. Árni Sæberg

Læknar á skurðlækningasviði og geðsviði Landspítalans lögðu niður störf á miðnætti í nótt og munu ekki mæta til vinnu aftur næstu tvo sólarhringana.  Aðgerðir Skurðlæknafélags Íslands standa til kl. 16 á fimmtudaginn. Alls leggja 136 læknar á spítalanum niður störf þessa daga.

Á geðsviði starfa 50 læknar og er gert ráð fyrir að 31 þeirra leggi niður störf. Bráðaþjónustu verður sinnt en göngudeildarstarfsemi lækna liggur niðri og hefur ríflega 100 viðtölum verið frestað.

Á skurðlækningasviði starfa 72 læknar sem eru félagsmenn í Læknafélagi Íslands og er gert ráð fyrir að 57 leggi niður störf. Alls eru 68 læknar í Skurðlæknafélagi Íslands og leggja 48 þeirra niður störf.

Bráðaþjónustu verður sinnt. Starfsemi á skurðstofum og svæfingadeildum miðast við bráðastarfsemi. 

Göngudeildir skurðlækna verða lokaðar dagana 4.-6. nóvember. Undir þær heyra göngudeild almennra skurðlækna (10E), göngudeild þvagfæralækninga (11A), göngudeild bæklunarlækninga (G3), göngudeild háls-, nef- og eyrnalækninga HNE (B3), göngudeild lýtalækninga (B3), göngudeild æðaskurðlækninga og göngudeild heila- og taugaskurðlækninga (B3). Göngudeildarkomur til annarra en lækna haldast óbreyttar.

Göngudeild augnlækninga (Ei 37) verður lokuð dagana 5. og 6. nóvember.

mbl.is