„Við förum svona eins og við komumst,“ segir Hermann Hermannsson, en hann og fjölskylda hans, Guðrún Dóra Þórudóttir og dæturnar Elísabet Anna og Þórhildur Salóme nýta fæðingarorlof foreldranna til að fara á utandagskrártónleika á Airwaves.
„Við vildum sjá Júníus og Ylju. Þær eru rosalega góðar,“ sögðu þau Hermann og Guðrún Dóra. „Ég hélt að þær hlytu að vera systur, því þær ná svo ótrúlega vel saman,“ en samskipti þeirra Bjarteyjar og Gígju á sviði virðast helst vera í gegnum bros, svipbrigði og dans.
„En við ákváðum að grípa í þá tónleika sem við getum. Það er alltaf hægt að kippa Þórhildi af leikskólanum og reyna að njóta dagsins.“ Elísabet Anna er sex vikna gömul, og því mögulega yngsta manneskja til að sækja tónleika á Airwaves, en Þórhildur er fimm ára. „Það er örugglega mjög gott að sitja og hlusta á tónlist og vera á brjósti.“