Allt gleymdist undir flutningi Ylju

Aldurmunurinn á yngstu og elstu gestum var rúm 90 ár.
Aldurmunurinn á yngstu og elstu gestum var rúm 90 ár. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrstu tónleikar Iceland Airwaves voru heldur óhefðbundnir. Tónleikagestirnir voru að meginstefnu íbúar á Grund, í bland við öllu hefðbundnari og hipsteralega Airwavesgesti. Hvern hefði grunað að það yrði algjör snilld.

Á tónleikunum, sem eru utandagskrár, eða off-venue tónleikar, spiluðu Júníus Meyvant og Ylja. Aldrei þessu vant byrjuðu tónleikarnir fyrir auglýstan tíma, svo ég var nýkominn inn þegar Júníus hóf upp raust sína. Ég náði þó síðustu mínútunum af morgunlestrinum, þar sem lesið var upp úr Morgunblaði dagsins um ágæti þess að fara í sjómann.

Júníus átti mjög góða spretti, þrátt fyrir að hafa að eigin sögn gleymt textanum á einum tímapunkti. Hann var í góðu sambandi við áhorfendur, og sló því upp í grín þegar leikskólabörn mættu í salinn og settust á gólfið fyrir framan fremsta hjólastólabekk. „Ég sé að fremsti bekkur hefur yngst um mörg ár við að hlusta á þetta lag,“ sagði Júníus.

<a href="https://instagram.com/p/vBCvvlvUm7/" target="_top">Júníus Meyvant á Grund #airwaves14</a>

A video posted by Gunnar Dofri (@gunnardofri) on Nov 11, 2014 at 3:25am PST

Ótrúlegar raddir

Þegar Júníus hafði lokið sínu tónleikahaldi steig hljómsveitin Ylja fram. Og þvílík frammistaða. Hljómsveitin gefur út nýja plötu á morgun, og góðs er að vænta, því þær Bjartey Sveinsdóttir og Gígja Skjaldardóttir hljóma eins og ein manneskja. Söngurinn er svo fallegur að maður áttar sig ekki á því að þetta er lifandi tónlist, ekki eitthvað sem búið er að pródúsera í hengla. Hljómsveitin hefur náð fullkomnum tökum á „þjóðlagatónlist“, sem þó er ekki rétta orðið yfir þetta. Þær minntu kannski dálítið á ósjúskaða Stevie Nicks, og lagið sem þær tóku af nýju plötunni var dálítið í ætt við Fleetwood Mac.

<a href="https://instagram.com/p/vBDFMUvUnN/" target="_top">Ylja á Grund #airwaves14 Gula birtan var vond en þvílíkar raddir!</a>

A video posted by Gunnar Dofri (@gunnardofri) on Nov 11, 2014 at 3:28am PST

Bara við það að hlusta á þær á minni eigin hálflélegu Instagramupptöku þá fæ ég notalega tilfinningu niður hrygginn sem ég get ekki útskýrt.

Á meðan þær sungu sleppti maður aðeins takinu á því sem er að gerast, læknaverkföllum, niðurskurði, uppsögnum og mótmælum, og stóð bara í núinu. Í yfirgullýstum sal á Grund með tvær syngjandi gyðjur fyrir framan sig og fleiri hjólastaóla en ég gat talið. Svona á tónlist að vera, og ef Airwaves verður eitthvað í hálfkvisti við þennan hálftíma milli 10:30 og 11:00 í morgun, þá er góðs að vænta. 

Ef þið viljið fylgjast með Gunnari Dofra á Airwaves um helgina er hægt að elta hann á Twitter, @gunnardofri og á Instagram, @gunnardofri.

Hljómsveitin Ylja.
Hljómsveitin Ylja. mbl.is/Árni Sæberg
Fulltrúar allra kynslóða.
Fulltrúar allra kynslóða. mbl.is/Árni Sæberg
Óhefðbundið upphaf Iceland Airwaves 2014.
Óhefðbundið upphaf Iceland Airwaves 2014. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is