„Algert ófremdarástand“ að skapast á Landspítala

Mikið annríki var hjá starfsfólki á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi …
Mikið annríki var hjá starfsfólki á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í gær. mbl.is/Golli

Mikið álag er orðið á bráðadeild Landspítalans vegna verkfalls lækna og segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, spítalann ekki geta sinnt fólki sem er í brýnni þörf fyrir að komast í aðgerðir.

Um 140 skurðaðgerðir og á sjötta hundrað heimsóknir á göngu- og dagdeildir hafa fallið niður frá því að verkfallið hófst í síðustu viku. Ef fram heldur sem horfir verða aflýstar heimsóknir á göngudeildir farnar að nálgast eitt þúsund í vikulok.

Ólafur segir að endurraðað verði á biðlista eftir aðgerðum. Eftir að boðuðu verkfalli ljúki 11. desember taki við jólafrí. Því verði ekki hægt að ganga á biðlista fyrr en á nýju ári.

Viðbótarbiðtími leiðir til óvissu

„Ég hef áhyggjur af afdrifum fólks sem nú hefur orðið fyrir áhrifum verkfallsins og bíður eftir aðgerð eða annarri þjónustu hjá okkur. Þessu fylgir óvissa, við vitum ekki hvernig þessu fólki reiðir af á þessum viðbótarbiðtíma... Það lítur út fyrir langa viðbótarbiðlista í marga mánuði og var nú nóg fyrir. Þetta er algert ófremdarástand og mikilvægt frá sjónarhóli spítalans að deiluaðilar komist að samkomulagi sem fyrst,“ segir Ólafur Baldursson.

Dýrt fyrir þjóðarbúið

Verkfallið getur þegar upp er staðið kostað íslenskt þjóðarbú milljarða króna í beinan og óbeinan kostnað.

Þetta er mat Ágústs Einarssonar, prófessors í hagfræði við Háskólann á Bifröst. „Það er ekki nokkur spurning að efnahagsleg áhrif læknaverkfallsins eru mjög mikil.“ Fyrir utan áhrif verkfallsins á vinnugetu sjúklinga getur það leitt til vinnutaps hjá aðstandendum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: