Karpa ekki um kjör í fjölmiðlum

3%, 30% eða 50% hækkun?
3%, 30% eða 50% hækkun? Ljósmynd/ Ásdís Ásgeirsdóttir

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags, segir lækna ekki vilja karpa um krónur og tölur í fjölmiðlum í kjaradeilu félagsins við ríkið. Þeir hafi aftur á móti ekki farið leynt með þá staðreynd að farið er fram á umtalsverðar kjarabætur. 

Verkfallsaðgerðir lækna í Læknafélagi Íslands hafa nú staðið yfir í rúma viku. 

3%, 30% eða 50% hækkun?

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagðist í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi telja að nokkuð væri í að samningar tækjust í deilunni. Sagði hann að þær kröfur sem hann hefur heyrt af séu óraunhæfar. „Við munum ekki semja um 50% launahækkun,“ sagði Bjarni. 

Morgunblaðið hefur áður greint frá því að samninganefnd ríkisins hafi ekki hvikað frá þeirri launastefnu að bjóða 3-4% launahækkanir en kröfur lækna séu aftur á móti metnar á bilinu 30-36%

Ekkert gengur eftir 20 samningafundi

Aðspurður um ummæli Bjarna segist Þorbjörn vonast eftir því að samningar náist sem fyrst. Aftur á móti beri að líta á að ekkert hafi gengið í viðræðum í margar vikur. 

Þorbjörn segist ekki hafa miklar áhyggjur af því að lög verði sett á verkfallið og segir ráðherra hingað til hafa neitað því að það hafi komið til tals. 

mbl.is