„Þetta er svo íslenskt“

Hljómsveitin Ylja.
Hljómsveitin Ylja. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst þetta alveg frábært, segir Elín Ólafía Finnbogadóttir íbúi á Grund. Fyrstu utandagskrártónleikar Airwaves voru haldnir á Grund í morgun, þar sem Júníus Meyvant og Ylja tóku lagið.

„Það er gaman fá þau hingað. Við yngjumst um 18 ár á núinu,“ segir hún og hlær. „Við erum að verða eins og leikskólabörnin sem komu hingað,“ segir Elín.

Guðrún Ólína Valdimarsdóttir, Didda, tók í sama streng. „Þeir voru yndislegir,“ segir hún. „Ég á ekkert annað orð yfir það, yndislegir.“ Hún sagði að atburðir sem þessir mættu vera oftar og að söngurinn hafi tvímælalaust staðið upp úr. 

„Þetta er svo íslenskt“

Danirnir Thomas Henriksen og Natasja Yuen komu til Íslands gagngert til að mæta á Airwaves. „Þetta er...öðruvísi,“ sagði Thomas um hvernig það væri að byrja Airwaves á hjúkrunarheimili. „Þegar við keyptum miðana fyrir hálfu ári þá var þetta ekki það sem við bjuggumst við sem opnunartónleika,“ bætir Natasha við. „En samt frábær óvænt uppákoma.“

„Þetta er svo íslenskt. Þetta myndi aldrei gerast í Danmörku,“ segja þau. „Hér er allt svo „lókal,“ íslensk menning virðist vera þannig. Ég hef komið hingað þrisvar áður og Airwaves-tónleikar á hjúkrunarheimili er til þess að styrkja mig í þeirri trú,“ segir Thomas.

Þau segjast hlakka til að sjá fjölda hljómsveita, bæði innlend og erlend. Þau dvelja hjá Íslendingi sem er með þeim í námi, og treysta alfarið á að hann kynni fyrir þeim íslensku böndin á Airwaves. „Við treystum Mumma alfarið fyrir þessu,“ segir Natasha. „Það er frábært að fara á tónleikastað og vita ekkert hvað er að fara að gerast.“

Ef þið viljið fylgjast með Gunnari Dofra á Airwaves um helgina er hægt að elta hann á Twitter, @gunnardofri og á Instagram, @gunnardofri.

Elín Ólafía Finnbogadóttir.
Elín Ólafía Finnbogadóttir.
Fulltrúar allra kynslóða.
Fulltrúar allra kynslóða. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is