Airwaves-veisla í fimm sólarhringa

Ásgeir Trausti kom undirrituðum á óvart með frábærri sviðsframkomu.
Ásgeir Trausti kom undirrituðum á óvart með frábærri sviðsframkomu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Iceland Airwaves er svo miklu meira en bara tónleikarnir, og hel***is raðirnar sem einkenna hátíðina, heldur er miðborg Reykjavíkur undirlögð af alls konar tónlistarviðburðum meira og minna frá morgni til kvölds alla dagana.

Fólk sem leggur ekki í síðkvöldstónleika fimm daga í röð, eða er einfaldlega ekki með passa á hátíðina getur því gert sér glaðan dag og dagamun með því að þræða utandagskrárdagskrána.

Utandagskráin er orðin stærri og veigameiri þáttur í Airwaves hátíðarhöldunum.

Sjálfur á ég bágt með að trúa að einhverjir toppi tónleikana sem ég sá tiltölulega nývaknaður á Grund í gærmorgun, þar sem Júníus Meyvant og Ylja spiluðu fyrir fullan sal af gamlingjum í hjólastól, í bland við starfsfólk hjúkrunarheimilisins og hipstera í þröngum gallabuxum með skrýtin skegg.

Gærkvöldið stóð þó ágætlega fyrir sínu. Eins og sönnum menningarrannsóknarblaðamanni sæmir kom ég mér inn á gólf hjá útlendingum, skiptinemum sem búa tíu saman í hálfgerðri kommúnu í Þingholtunum.

Stefnan þeirra var einföld - þau vildu sjá Ásgeir Trausta. Ég var efins, því mín upplifun af Ásgeiri á sviði er óspennandi. Sviðsframkoman kom mér hins vegar mjög skemmtilega á óvart, því hann var miklu, miklu kraftmeiri en ég hef hingað til upplifað hann.

Utandagskráin

Blessunarlega er engin þörf á að bíða fram á kvöld til að komast aftur á Airwaves, því af nógu er að taka í dag. Ef ég gæti verið á mörgum stöðum í einu myndi ég leggja mig fram við að sjá Árstíðir á Kex klukkan 14:00, Prins Póló á Jör klukkan 15:00, Snorra Helgason á Kaffihúsi Vesturbæjar klukkan 15:00, Hermigervil á JÖR klukkan 16:00, Júníus Meyvant á Kex klukkan 16:00, Nuke Dukem í LHÍ klukkan 16:00, Low Roar á Slippnum klukkan 17:00, Una Stefson á JÖR klukkan 17:00, Samaris á Kaffibarnum klukkan 17:45 og svona mætti lengi telja, að öðrum listamönnum að sjálfsögðu ólöstuðum.

Gunnar Dofri flakkar um Airwaves alla helgina. Ef þú vilt fylgjast með honum er hægt að elta hann á Twitter, @gunnardofri og á Instagram, @gunnardofri.

Stöðluð tónleikagestamynd.
Stöðluð tónleikagestamynd. mblis/Eggert Jóhannesson
Tónleikar á Grund.
Tónleikar á Grund. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is