Vandamálin eiga eftir að safnast upp

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir verkfallið koma niður á …
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir verkfallið koma niður á þeim sem síst skyldi. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Afbóka þurfti hundrað viðtöl á göngudeild geðsviðs Landspítalans í dag og í gær vegna verkfalls lækna á sviðinu. Sum viðtölin höfðu verið bókuð með löngum fyrirvara.

Starfsfólk sviðsins mun útvega sjúklingunum annan tíma en ekki er víst að allir komist að jafn fljótt og þeir hefðu viljað.

María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs spítalans, segir að afleiðingar verkfallsaðgerðanna geti haft í för með sér mikla röskun fyrir sjúklinga sviðsins, enda um skerta þjónustu að ræða.

Hafa lagt nokkra inn síðan verkfallið hófst

Bráðatilvikum er sinnt, líkt og á öðrum sviðum sem verkfallið nær til. Þetta á einna helst við um innlangnir á móttökudeildir geðdeildarinnar. Að sögn Maríu er algengasta ástæða innlagnar geðrofsástand eða tilraunir til sjálfsvígs og geta þessir sjúklingar alls ekki beðið eftir þjónustu. 

„Fólk hefur tekið þessu ótrúlega vel og sýnt verkfallinu og þessari erfiðu stöðu umburðarlyndi,“ segir María aðspurð um viðbörgð sjúklinga við verkfallsaðgerðum lækna. Hún segir að vandamálin eigi þó eftir að safnast upp og verði að uppsöfnuðum vanda sem þurfi að takast á við síðar.

Félagsráðgjafar, iðjuþjálfarar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk sviðsins er við störf í dag líkt og aðra daga.  

Kemur niður á þeim sem síst skyldi

„Þetta kemur sér illa fyrir þá sem eru í eftirfylgd og í bata. Það getur hugsanlega dregið úr bata hafi fólk ekki stuðning,“ sagði Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, í samtali við Morgunblaðið í dag um áhrif verkfalls á geðsviði. 

„Þetta kemur niður á þeim sem síst skyldi, þeim sem njóta lítils stuðnings frá fjölskyldu, vinum og nærsamfélagi.“

María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans.
María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is