Gólfið dúaði á öðru kvöldi Airwaves

Clémence Quélennec, söngkona La Femme.
Clémence Quélennec, söngkona La Femme. Eggert Jóhannesson

Airwaveshátíðin hélt áfram í gærkvöldi, engu síðri en kvöldið áður. Það má reyndar deila um hvort hátíðin einskorðist við kvöldin, því miðborgin er undirlögð af Airwavestengdum viðburðum frá hádegi alla daga hátíðarinnar, eitthvað sem hver sem er getur kynnt sér, sér að kostnaðarlausu.

Á hátíðinni er líka eins og miðborgin skipti um gír. Jújú, hér er allt fullt af ferðamönnum, bara öðruvísi ferðamönnum. Airwavesgestir sem koma erlendis frá eru fæstir jarmandi miðaldra rútutúristar í útivistarfötum í Bankastræti á því sem Íslendingar myndu kalla sólríkan og góðan sumardag í júlí, heldur ungt og öðruvísi fólk, sem gefur miðborginni borgarblæ en ekki þorpssvip eins og stundum vill verða. 

Hryggjarstykki hátíðarinnar er þó auðvitað kvölddagskráin, sem er í auknum mæli að færast yfir í Hörpu, undirrituðum til takmarkaðrar ánægju. Það kann að hljóma eins og einhver fortíðarþrá, en í mínum huga á Airwaves að vera sem næst Austurvelli og hægt er, á Nasa, í Listasafninu og nærliggjandi stöðum. En maður verður víst að taka því sem býðst, þó svo að biðin í Hörpu minni oft meira á bið eftir flugi en tónleikum.

Hvað um það. Kvöldið hófst á Húrra þar sem RVK SOUNDSYSTEM böðuðu tónleikagesti í grjóthörðu reggíi, eiginlega of hörðu framan af, því þokulúðrarnir á upptökum hlómsveitarinnar gerðu lítið annað en að pirra mann. Eftir því sem á leið fjölgaði á sviðinu, og náði sveitin hámarki þegar Amabadömur tóku yfir sviðið og fluttu ofursumarsmellinn sinn, Hossa hossa. Stemningin á Húrra hefur örugglega verið í þeim gírnum fram eftir nóttu, því þar áttu meðal annarra Reykjavíkurdætur, Amabadama og Ojba Rasta eftir að spila.

„Við eigum 10 mínútur eftir. Við erum með klukku“

Leiðin lá í Hörpu, þar sem restinni af kvöldinu var raunar varið. Þrátt fyrir að, eins og áður sagði, líða eins og á flugvelli og í allt of fínu umhverfi, þá hefur Harpa óneitanlega þann kost að þar getur maður verið innandyra allan tímann. Veðurguðirnir hafa reyndar verið óvenjugóðir við Airwavesgesti það sem af er hátíðar, því hefðbundinn Airwavesstormur hefur ekki látið á sér kræla. Kannski eru þeir með samviskubit eftir sumarið. Í kvöld má reyndar búast við úrkomu og frosti annað kvöld, en það hlýtur að teljast minniháttar á Íslandi í nóvember.

For a Minor Reflection tóku við keflinu klukkan níu í Silfurbergi, þar sem þeir spiluðu það sem Guðfinnur Sveinsson, einn hljómsveitarmeðlima, lýsti sem þeirra bestu tónleikum hingað til. Tónlistin var þétt, rokkaðri en oft áður, íslenski hreimurinn hjá Guðfinni var alveg eins og hann á að vera og ljósashowið í bakgrunninum var frábært.

Hljómsveitin ætlaði sér að spila bara nýja tónlist á sviði, en endaði að sjálfsögðu á að taka nokkur eldri lög. Salurinn skellti upp úr þegar þeir bentu á að þeir ættu 10 mínútur eftir af spilatíma, um það bil tvö lög. „Við erum nefnilega með klukku,“ sagði Guðfinnur og benti á klukku sem var í óða önn við að telja niður frá níu mínútum og fjörtíuogtveimur sekúndum.

Ylja á öðru stigi

Eftir að For a Minor Reflection höfðu klárað sitt steig á svið bandaríska hljómsveitin Horse Thief. Þrátt fyrir að bassaleikarinn hafi litið út eins og risavaxin útgáfa af Jack Black og söngvarinn væri glæsilega rauðskeggjaður, þá kom það ekki í veg fyrir að mér liði eins og ég hefði heyrt þessi lög hundrað sinnum áður, bara í betri útgáfum hljómsveita á borð við Bombay Bicycle Club, Vampire Weekend og Mumford and Sons.

Næst á dagskrá, að vísu í salnum við hliðina á, var Ylja. Hljómsveitin var á sviði allt öðruvísi en maður á að venjast, miklu dekkri, án þess þó að vera beint drungaleg. Kannski meira fullorðinsleg. Nýja efnið frá þeim, sem kom opinberlega út í gær, er líka miklu þyngra og þroskaðra en það sem þau hafa áður gefið út.

Þrátt fyrir það hefur sveitin ekki fórnað sínum helsta styrkleika: samhljómi radda Bjarteyjar og Gígju. Ég verð alltaf jafnundrandi þegar ég heyri þær syngja, og hef trú á að hljómsveitin verði enn stærra nafn í íslenskum tónlistarheimi áður en langt um líður.

Sviðsframkoman var látlaus en kraftmikil. Bjartey var í svörtum kufli með hettu sem hún tyllti á höfuðið, á meðan Gígja var í svörtum pallíettukjól, sýndist mér allavega, sem glitraði fallega á í ljósunum.

Gólfið í Silfurbergi dúaði

Síðustu listamenn þessa kvölds var franska hljómsveitin La Femme. Ég get eiginlega ekki sagt annað en hljómsveit, því ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa þessu. Þegar þau stigu á svið var einn í bandinu í óhugnanlega glansandi jakkafötum með vondukallalega heilgrímu yfir andlitinu, sem hann svo skipti út fyrir Clockwork Orange grímu. Ég átta mig engan veginn á hvert hlutverk hans er í hljómsveitnni, en hann hljóp mjög mikið um og gerði allskonar læti.

Annar hljómsveitarmeðlimur var í svo þröngum og rauðum náttfataheilgalla að hann var eiginlega að springa utan af honum, fyrir utan að maður gat eiginlega séð framtíðarbörnin hans sökum þrengsla.

Aðalsöngkona La Femme, Clémence Quélennec, var eins sækadelíu 60'slega klædd og hugsast getur, tággrönn í útvíðum ólívugrænum buxum og doppóttum bol. Tónlistin þeirra var þrátt fyrir þetta, í einu orði sagt frábær. Salurinn var algjörlega tilbúinn fyrir stórskrýtið franskt sækadelíupopp. Á tímabili átti ég líf mitt ferköntuðum verkfræðingum að launa, sem hafa greinilega gert ráð fyrir því að gólfið í Silfurbergi þyrfti að gera dúað í takt við örugglega um 1.000 manns sem dönsuðu eins og enginn væri föstudagsmorguninn.

La Femme er að mínum dómi það skemmtilegasta sem ég sá þetta kvöldið, sennilega vegna þess að kynni mín af sveitinni eru lítil sem engin, og alltaf skemmtilegt að finna eitthvað svona skemmtilegt sem kemur manni algjörlega á óvart.

Salka Sól á sviði með RVK SOUNDSYSTEM.
Salka Sól á sviði með RVK SOUNDSYSTEM. Eggert Jóhannesson
For a Minor Reflection.
For a Minor Reflection. Eggert Jóhannesson
Reykjavíkurdætur voru skrautlegar á Húrra.
Reykjavíkurdætur voru skrautlegar á Húrra. Eggert Jóhannesson
Ylja var dekkri yfirlitum en oft áður.
Ylja var dekkri yfirlitum en oft áður. Eggert Jóhannesson
mbl.is