M-in fimm á Landspítalanum

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég vona svo sannarlega að við Íslendingar berum gæfu til að fjármagna þetta kerfi svo viðunandi sé. Forveri minn talaði um að hann vildi ekki fara með okkur fram af bjargbrúninni. Því miður erum við komin fram af bjargbrúninni en þetta er ekki hengiflug, þetta er brött skriða. Við þurfum að fá línu til að koma okkur aftur upp á brúnina og síðan aðrar til að koma okkur langt frá henni.“

Þetta sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á opnum fundi Viðreisnar um heilbrigðismál, sem  haldinn var á Hótel Natura í dag. Í erindi sínu, sem bar heitið Landspítalinn - Óskabarn í spennitreyju?, sagði Páll m.a. að á þessari öld hefðu stjórnmálaöflin dregið úr fjárframlögum til heilbrigðismála með markvissri stefnumótun.

Hann sagði að í kjölfar hrunsins hefði Landspítalinn gripið til markvissra aðgerða til að draga saman seglinn án þess að það bitnaði á spítalanum eða þjónustunni en að lokum hefði sparnaðurinn farið að bíta á starfsfólkinu, innviðum og fleiru.

Aðgerðirnar hefðu unnið gegn sóun en einnig falist í því að halda í sér andanum, sagði Páll. „Það vita allir að það er hægt að halda í sér andanum í mínútu, en ekki í fimm mínútur,“ sagði hann.

Forstjórinn sagði að talað væri um M-in 5 á spítalanum: mósa (baktería), myglu, maura, mýs og milljarðana sem vantar.

Páll sagði að gengið hefði verið of harkalega fram í aðhaldsaðgerðum, það endurspeglaðist m.a. í verkföllum starfsfólks, að fjármunir dygðu ekki til að sinna lögbundnum verkefnum og að ekki hefði verið hægt að sinna innviðum, hvorki húsakosti né t.d. rafrænum kerfum.

Hann benti á að framleiðni og starfsánægja starfsfólks hefðu minnkað síðustu tvö ár. Þá hefði mun sjaldnar verið vitnað í rannsóknir Landspítala árin 2008-20011 en áður.

Páll sagði einnig að til þess að halda dampi þyrftu fjárveitingar til spítalans að aukast um 4% á næsta ári. „Ég held að það sé hlutur af okkar vanda hvernig fjármögnunarmódelið er,“ sagði hann og benti á að á meðan Landspítalinn þyrfti að vinna innan ákveðins fjárlagaramma sem taki ekki tillit til lýðfræðilegra þátta sé horft til slíkra þátta, t.d. öldrunar þjóðarinnar, þegar kemur að framlögum til Sjúkratrygginga.

Að sögn Páls þarf að auka framlög til heilbrigðisþjónustunnar um 20 milljarða á ári. „Ég held að við höfum séð það síðasta sólahringinn að svona peningar eru til og hægt að kasta í ýmsar áttir,“ sagði hann.

Þá sagði forstjórinn að meðal áskoranna næstu missera væri m.a. öryggisógn í meðferð sjúklinga og mikill kostnaður vegna uppskiptingar starfsemi Landspítalans.

Á fundinum fluttu einnig erindi Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, dósent í heilsuhagfræði, sem m.a. fjallaði um hvernig ákvarðanataka varðandi heilbrigðiskerfið ætti að byggja á upplýsingum, og Ólafur Már Björnsson, augnlæknir hjá Sjónlagi, sem ræddi m.a. um það hvort þörf væri á að endurnýja samfélagssáttmálann um forgangsröðunina í heilbrigðiskerfinu.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir dósent í heilsuhagfræði.
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir dósent í heilsuhagfræði. mbl.is/Ómar Óskarsson
Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir.
Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir. mbl.is/Ómar Óskarsson
Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Ómar Óskarsson
mbl.is