„Ekki hægt að vera bjartsýnn“

Læknar að stöfum.
Læknar að stöfum. Rax / Ragnar Axelsson

Skurðlækna­fé­lag Íslands fundaði í morgun með samn­inga­nefnd rík­is­ins vegna kjaradeilunnar sem nú stendur yfir. Viðsemjendur komust lítt áfram og var fundi slitið eftir nokkrar mínútur. Næsti fundur er ekki boðaður fyrr en eftir viku.

Að sögn Helga Kjartans Sigurðarsonar, formanns Skurðlæknafélags Íslands, hafði samninganefnd ríkisins ekkert fram að færa á fundinum. „Það voru engin tilboð og ekkert lagt fram. Þetta var skammur fundur og samninganefnd ríkisins hafði ekkert fram að færa.“

Engar verkfallsaðgerðir standa yfir hjá skurðlæknum í þessari viku, en næsta lota mun hefjast aðfaranótt þriðjudagsins 18. nóvember. „Þetta er sorglegt,“ segir Helgi. „Það er ekki hægt að vera bjartsýnn í þessari stöðu.“

Tæp­lega 90 lækn­ar eru í fé­lag­inu og falla all­ar skipu­lagðar aðgerðir niður þá daga sem verk­fallið stend­ur yfir. Aðeins bráðatil­vik­um verður sinnt þessa daga. 

Eins og fram hefur komið fer Skurðlækna­fé­lag Íslands fram á upp und­ir 100% hækk­un á grunn­laun­um ný­út­skrifaðra sér­fræðinga í kjaraviðræðum við ríkið. 

Félagið fer fram á að laun skurðlækna hér á landi verði svipuð og þau eru í ná­granna­lönd­un­um. Ekki er óalgengt að ný­út­skrifaður sér­fræðing­ur í Svíþjóð fái 60 til 70 þúsund sænsk­ar í laun á mánuði, en það er rétt rúm millj­ón í ís­lensk­um krón­um. Ný­út­skrifaður sér­fræðing­ur á Íslandi er með um hálfa millj­ón í grunn­laun.

mbl.is