Langar ekki að umgangast þá sem særa

Linda Baldvinsdóttir.
Linda Baldvinsdóttir. Ljósmynd/Ólafur Harðarson.

„Með aldrinum og þroskanum breytumst við, verðum vonandi vitrari, ef ekki hreinlega bara tindrandi af visku og þekkingu á mannlífinu og eðli þess. Fyrir utan það að líklega gerir viskan það að verkum að okkur verður nokk sama hvað öðrum finnst um lífsgönguna okkar og framkvæmdir,“ segir Linda Baldvinsdóttir í sínum nýjasta pistli á Smartlandi Mörtu Maríu. Linda stýrir þættinum Linda og lífsbrotin sem hafa notið mikilla vinsælda. 

Á dögunum sagði leikkonan Meryl Streep frá því að hún væri að missa þolinmæðina gagnvart ýmsum hlutum. Linda segist ekki getað verið meira sammála henni.

„Þegar ég las þetta, fann ég að ég var afar sammála henni um margt af því sem hún þuldi þarna uppúr sér. Ég var til dæmis afar sammála henni um það að í dag langar mig hreinlega afskaplega lítið til að umgangast fólk sem virðist hafa það eitt að markmiði að særa mig eða láta mér líða illa með einum eða öðrum hætti...í dag hef ég afar lítinn áhuga á því að reyna að þóknast þeim hinum sömu, eða að vera að reyna að vekja áhuga þeirra á persónuleika mínum. Gæti ekki staðið meira á sama um álit þeirra og dóma.

Ég hef líka takmarkaðan áhuga á því að vera sífellt að sýna kærleika minn þeim sem ekkert vilja með hann hafa, eða jafnvel stíga á hann. Það meiðir mig bara.

En þeim sem vilja þiggja velvilja minn, kærleika og vináttu gef ég fúslega allt það sem ég hef uppá að bjóða í þeim efnum.“

Lífið hefur kennt Lindu að hún nenni ekki að vera neitt annað en hún er og hún vill lifa lífi sínu af heilindum. Hún játar reyndar að það takist ekki alveg alltaf.

„Ég nenni ekki að láta stjórna mér, skoðunum mínum, lífsviðhorfum eða öðru. Á mitt líf sjálf. Hafi einhver út á það að setja, er það bara þannig, og kemur mér í raun lítið við. Ég á erfitt með að umbera fordómafullt fólk sem sífellt þarf að hafa skoðun á því hvernig aðrir eigi að haga sér eða vera.“

Linda segir að það skipti mjög miklu máli fyrir alla að eiga vini.

„Vinir eru nauðsynlegir sálinni, og þeir mega vera í öllum litum og af öllum gerðum, en sérlega hollir eru þeir sem styðja við mann á lífsgöngunni með hvatningu, hrósi, kærleika, víðsýni, dómhörkuleysi og umönnun. Þessir vinir eru bráðhollir fyrir allan peninginn. Og þar er ég heppið stelpuskott, því ég hef slatta af svona vinum í kringum mig.

Allt þetta sem ég hef talið hér upp og hugleiddi með sjálfri mér, finnst mér vera hluti af þeirri visku sem ég hef öðlast með árunum. Og þetta er sú viska sem nýtist mér alla daga afar vel á lífsgöngunni.

Þegar okkur er orðið nokk sama um það hvað náunginn hefur um okkur að segja, þá gerast kraftaverkin. Við förum að láta lífið rætast, og sækjumst eftir því sem okkur hefur alltaf dreymt um. Og hvað getur verið dásamlegra en að eiga líf fullt af gleði, tilgangi, ástríðu og glimmeri?“

mbl.is