Verkfall lækna hefst á ný í næstu viku

Læknar að störfum.
Læknar að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Læknafélag Íslands (LÍ) fundaði í gær með samninganefnd ríkisins vegna kjaradeilunnar sem nú stendur yfir. Viðsemjendur náðu ekki saman, og var fundi slitið eftir um eina og hálfa klukkustund. Næsti fundur er ekki boðaður fyrr en á þriðjudaginn í næstu viku.

Það er því ljóst að öllu óbreyttu að verkfallsaðgerðir lækna munu hefjast á ný aðfaranótt mánudags. „Það er ekkert að þokast og ég er ekki sérstaklega bjartsýnn á að það gerist fljótlega,“ segir Þor­björn Jóns­son, formaður LÍ.

Næsta verkfallslota mun byrja eins og sú fyrsta, en þá fer heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni í verkfall. Þá leggja læknar á rannsóknarsviði og kvenna- og barnasviði Landspítalans niður störf. 

Líkt og í síðustu lotu mun allri bráð verða sinnt, og öryggi sjúklinga verður tryggt.

Skurðlækna­fé­lag Íslands átti einnig árangurslausan fund í gær, og mun félagið því hefja verkfallsaðgerðir í næstu viku. Á aðfaranótt þriðjudagsins í næstu viku munu skurðlæknar því leggja niður störf.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hafa verkefni hrannast upp og biðlistar lengst mikið vegna síðustu verkfallslotu. Starfsfólk spítalans undirbýr sig nú fyrir næstu lotu, sem mun að öllum líkindum hafa sömu áhrif á starfsemina. 

mbl.is