Minna bjartsýnn nú en fyrir verkfall

Verkfall lækna hófst 27. október sl. Formaður Læknafélagsins er ekkert …
Verkfall lækna hófst 27. október sl. Formaður Læknafélagsins er ekkert sérlega bjartsýnn á að samningar náist á næstunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Verkfallsaðgerðir lækna hafa staðið yfir frá 27. október, í samtals 8 daga af 21. Á morgun hefst önnu umferð ef svo má segja; verkfallsplanið frá 27. október sl. endurtekur sig næstu viku, nema hvað skurðlæknar verða einnig í verkfalli frá kl. 8 á þriðjudag og til kl. 16 á fimmtudag.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir menn augljóslega hafa orðið fyrir vonbrigðum með að ekki hafi tekist að semja en engan bilbug sé að finna á læknum. Hann segist ekki hafa heyrt að menn séu í uppgjafarham og tilbúnir að gefa eftir í kjaraviðræðunum, en á hinn bóginn viti hann um einhverja sem séu í þeim gír að fara bráðum að segja upp.

„Ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn á að það gangi neitt saman endilega á næstunni, án þess að maður geti neitt fullyrt um það,“ svarar Þorbjörn, spurður að því hvernig hann meti stöðuna í viðræðunum. „Ég er minna bjartsýnn núna en þegar verkfallið var að byrja, ég get alveg sagt það. Eða ég er minna bjartsýnn á skjóta lausn, eigum við ekki að orða það þannig, heldur en ég var í upphafi verkfallsins.“

En sáum menn fyrir sér að verkfallið myndi standa þetta lengi?

„Það var náttúrlega ómögulegt að segja. Við vorum við öllu búin, þess vegna boðuðum við verkfall í sjö vikur en ekki fjórar vikur, eða eitthvað. Þess vegna boðuðum við verkfall í raun alveg fram að jólum. Af því að við höfum enga reynslu af því hvernig er að standa í verkfalli. Þannig að við renndum alveg blint í sjóinn með það,“ segir Þorbjörn.

Búið er að gera verkfallsáætlun fram til 11. desember en semjist ekki á næstunni verður fjallað um framhaldið innan stjórnar Læknafélagsins og meðal félagsmanna, segir Þorbjörn.

Um þau áhrif sem verkfallið hefur haft á þjónustu Landspítalans segir Þorbjörn ljóst að það hafi valdið umtalsverðum töfum og óþægindum fyrir sjúklinga. Þá hafi biðlistar lengst. Hann segir hins vegar að læknar hafi lagt sig fram um að sjúklingar bæru ekki heilsufarslegan skaða af verkfallsaðgerðunum.

En lengist  tíminn sem það mun taka að vinda ofan af áhrifum verkfallsins?

„Já, ef þú ert að tala um Landspítalann þá held ég að það sé alveg ljóst mál að eftir því sem þetta stendur lengur, því lengri tíma mun taka að greiða úr málinu að verkfalli loknu. Það held ég að verði kannski bara í réttu hlutfalli við lengd verkfallsins.“

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
mbl.is