Afboða börn í læknisskoðanir

Aðeins bráðatil­vik­um er sinnt á heilsu­gæslu­stöðvum höfuðborg­ar­svæðsins í dag.
Aðeins bráðatil­vik­um er sinnt á heilsu­gæslu­stöðvum höfuðborg­ar­svæðsins í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fjöldi læknisskoðana hefura fallið niður eða verið frestað á heilsugæslunni í Glæsibæ í morgun. Þar á meðal hefur þurft að afboða börn í ung- og smábarnavernd þar sem læknisskoðanir koma við sögu.

„Þetta getur valdið óþægindum fyrir foreldra. Þetta eru yfirleitt uppundir klukkutíma skoðanir svo fólk er yfirleitt búið að taka sér frí í vinnu og tala við leikskólann,“ segir Sigrún Barkardóttir, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöðinni í Glæsibæ.

Verk­fall lækna í Lækna­fé­lagi Íslands hófst á miðnætti í nótt og eru lækn­ar á heilsu­gæslu­stöðvum höfuðborg­ar­svæðis­ins meðal þeirra sem fara fyrst­ir í verk­fall. Þess má geta að lækna­vakt­in á Smára­torgi er opin í dag frá 17 í dag líkt og aðra daga. 

Á heilsu­gæslu­stöðinni í Glæsibæ eru að jafnaði fimm lækn­ar að störf­um á virk­um degi, þar af einn yf­ir­lækn­ir. Í dag og á morg­un mæt­ir aðeins yf­ir­lækn­ir­inn til starfa og sinn­ir hann aðeins bráðatil­fell­um. Þetta geta til dæm­is verið til­vik þar sem sjúk­ling­ur kem­ur á stöðina með verk fyr­ir brjósti eða mikla kviðverki.

Starfsemi óbreytt hjá hjúkrunarfræðingum

Starfsemin er þó nánast óbreytt hjá hjúkrunarfræðingum og töluvert mikið er að gera í hjúkrunarmóttöku.

„Allar læknamóttökur raskast og allar þær heimsóknir sem þarfnast lyfjagjafar,“ segir Sigrún. „En það er nóg að gera eins og venjulega í hjúkrunarmóttökunni.“

Aðeins lífsnauðsynleg lyf endurnýjuð

Þá eru aðeins lífsnauðsynleg lyf endurnýjuð á heilsugæslustöðinni, eins og öðrum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins. Yf­ir­lækn­ir sér um end­ur­nýj­an­ir vegna neyðar­til­vika, líkt og á insúlíni og hjarta- og krabba­meins­lyfj­um. 

Þrátt fyrir röskunina á starfseminni segir Sigrún fólk mjög tillitssamt og rólegt yfir verkfallinu.

mbl.is