„Það er augljóst að ástandið versnar og flækist eftir því sem tíminn líður, ekki síst vegna þess að rúmanýting og skurðstofunýting er hátt í 100%. Það mun taka langan tíma að vinna þetta upp.“
Þetta segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, í Morgunblaðinu í dag um áhrif verkfallsaðgerða lækna en ný lota verkfalla hófst í nótt eftir viku hlé.
Ólafur tekur fram að Landspítalinn sé ekki beinn aðili að deilu læknafélaganna og ríkisins. „Við viljum hvetja deiluaðila til að gera allt sem þeir geta til að ná sáttum. Það er mjög brýnt,“ segir hann.
Verkfallslota Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands sem hófst í október varð til þess að fresta þurfti 300 skurðaðgerðum og sérhæfðum aðgerðum á Landspítalanum, 400 rannsóknir féllu niður og fresta þurfti um 1.000 dag- og göngudeildarkomum. Viðbótarlistar hrannast upp og lítið hefur gengið við að vinna á þeim.