Fólk sýnir verkfallinu skilning

Heilsugæslan í Garðabæ.
Heilsugæslan í Garðabæ. Gísli Sigurðsson

Ekkert einasta erindi hefur komið á borð yfirlæknis á heilsugæslustöðinni í Garðabæ í dag. Ekki hefur verið mikið að gera á stöðinni í dag, en svo virðist sem upplýsingar um yfirvofandi verkfallsaðgerðir hafi komist vel til skila til íbúa Garðabæjar.

Verk­fall lækna í Lækna­fé­lagi Íslands hófst á miðnætti í nótt og leggja lækn­ar á heilsu­gæslu­stöðvum höfuðborg­ar­svæðis­ins niður störf til miðnætt­is aðfaranótt miðviku­dags.

„Fólk virðist átta sig á því að heimilislæknar séu ekki að störfum í dag og væntanlega á morgun líka,“ segir Bjarni Jónasson, yfirlæknir stöðvarinnar. „En það verður auðvitað heilmikil röskun á högum fólks þegar það kemst ekki til læknis.“

Þá segir hann fólk sýna verkfallinu skilning.

Sinna aðeins tilfellum sem ekki þola bið

Læknar á heilsugæslustöðvum höfuðborg­ar­svæðis­ins eru meðal þeirra sem fara fyrst­ir í verk­fall. Í dag og á morg­un mæt­ir aðeins yf­ir­lækn­ir­inn til starfa og sinn­ir hann aðeins bráðatil­fell­um sem þola enga bið. Þetta geta til dæm­is verið til­vik þar sem sjúk­ling­ur kem­ur á stöðina með verk fyr­ir brjósti eða mikla kviðverki.

„Eingöngu er sinnt erindum sem þola enga bið. Ef spurning er um líf og dauða þá sé ég fyrir mér að heimilislæknar á heilsugæslustöðvunum kæmu að því, en annars er starfsemin engin,“ segir Bjarni.

Þeir sem eiga erindi við hjúkrunarfræðinga, lífeindarfræðinga, heilsuvernd barna eða mæðraeftirlit fá þó sína þjónustu, en engum læknistengdum erindum er sinnt.

Þess má geta að lækna­vakt­in á Smára­torgi er opin í dag frá 17 í dag líkt og aðra daga. Þá eru bráðamóttökur Landspítala opnar, en vakin hefur verið athygli á því að álag geti aukist á þessum stöðvum í dag og á morgun. 

mbl.is