„Fylgjumst vel með þessu máli“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

„Fyrst af öllu þá getur hæstvirtur forsætisráðherra ekki komið hér upp og talað eins og hann sé áhorfandi að þessari alvarlegu deilu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstvirtur forsætisráðherra og hæstvirtur fjármálaráðherra hafi ekki fundað með formanni samninganefndar ríkisins í þessari deilu. Það eru þá alvarleg afglöp ef svo er og ber vitni miklu alvöruleysi af hálfu hæstvirts forsætisráðherra.“

Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag þar sem hann gagnrýndi harðlega hvernig stjórnvöld héldu á málum vegna verkfalls lækna. Varaði hann við afleiðingum verkfallsins fyrir sjúklinga og heilbrigðiskerfið. Biðlistar lengdust og aukin hætta væri á að læknar flyttust til annarra landa í leit að betri kjörum. Hann sagði að forsætisráðherra gæti reynt að segja það á ábyrgð allra annarra á vinnumarkaði að finna lausn á kjaradeilu lækna. Það væri hins vegar ekki rétt. Ráðherrann hefðihaft í hendi sér að tryggja frið á vinnumarkaði í lok síðasta árs en þvert á móti gert allt til þess að stuðla að ófriði við aðila vinnumarkaðarins. Það væri ekki verkefni þeirra eða stjórnarandstöðunnar um að skera hann niður úr þeirri snöru.

„Ég get fullvissað háttvirtan þingmann um að við fylgjumst vel með þessu máli og hverju skrefi,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og bætti við að alrangt væri að halda því fram að hann eða aðrir ráðherrar hefðu gert allt til að sprengja upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins. En ef vilji væri til að eiga í góðu samstarfi á þeim vettvangi yrði að líta á heildarmyndina. Það hefði allajafna verið stefnan þegar ná hefur átt sátt að líta til heildaráhrifa. 

„Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvort að hækkanir hjá læknum umfram það sem samið hefði verið um annars staðar væri til þess fallið að, eins og háttvirtur þingmaður orðaði það, sprengja upp sátt við aðila vinnumarkaðarins.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinna.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is