Hefur kallað út þjóðvarðliðið

AFP

Fylkisstjóri Missouri í Bandaríkjunum hefur nú kallað út þjóðvarðliðið í ríkinu en nú er beðið eftir niðurstöðu kviðdóms í máli Michael Brown, en hann var skotinn til bana af lögreglumanninum Darren Wilson í úthverfi St. Louis, Fergusson í ágúst. BBC segir frá þessu.

Óttast er að óeirðir munu brjótast út er dómurinn verður kveðinn. Mikil mótmæli og óeirðir mynduðust, aðallega í Fergusson og stóðu þær yfir í margar vikur. 

Kviðdómur er nú að ákveða hvort að Wilson verði ákærður fyrir dauða Brown eða ekki. Brown var 18 ára gamall þegar hann lést. 

Saksóknari St. Louis sýslu segist búast við því að kviðdómurinn nái niðurstöðu eftir miðjan nóvember. 

Dauði Brown vakti heimsathygli og mikla reiði. Samkvæmt vitnum var Brown uppi með hendur er Wilson, sem sagðist hafa verið hræddur við Brown, skaut. 

Lögregla hélt því fram að Brown hafi reynt að taka byssuna af Wilson áður en hann var skotinn. 

„Þetta er hluti af tilraun okkar til þess að skipuleggja og vera undirbúin fyrir hvers konar óvissu. Það er nauðsynlegt að vera með þetta úrræði til boða áður en kviðdómurinn tilkynnir niðurstöðu sína,“ sagði Jay Nixon, fylkisstjóri Missouri í yfirlýsingu. 

Nokkuð hefur verið um mótmæli síðustu daga. Tugir manns tóku þátt í mótmælagöngu í borginni Clayton, en þar starfar kviðdómurinn. 

Mótmælaganga í Clayton í dag.
Mótmælaganga í Clayton í dag. AFP
AFP
mbl.is