Næsti fundur í kjaradeilu Læknafélags Íslands (LÍ) við íslenska ríkið fer fram í húsi ríkissáttasemjara kl. 16 á morgun. Um tuttugu samningafundir hafa farið fram í deilunni til þessa en án árangurs.
Á miðnætti hófst önnur lota verkfallsaðgerða LÍ. Læknar á kvenna- og barnasviði og læknar á rannsóknarsviði fara í tveggja sólarhringa verkfall og á sama tíma verða læknar á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum um landið í verkfalli.
Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélags Íslands, segir afar slæmt að komið hafi til þess að hefja þurfti aðra lotu verkfallsaðgerðanna. Hún segir þó ekkert hafa þokast í kjaraviðræðunum til þessa og því sé bjartsýnin farin að minnka.
„Við verðum þó að semja, það er sjálfgefið. Við verðum að reyna að sporna við þeirri þróun sem hér er. Þetta er bara nauðvörn,“ segir hún, og vísar til þeirrar þróunar að ungir læknar flytjist í stórum stíl af landi brott þar sem betri kjör bjóðast í öðrum löndum.
Forsvarsmenn Læknafélags Íslands og samninganefndar félagsins vilja afar lítið segja um kröfur sínar. Líkt og áður hefur komið fram er talið að farið sé fram á 30 til 36% hækkun á grunnlaunum en samninganefnd ríkisins bjóði aftur á móti 3 til 4% hækkun.
Sigurveig segir tilboðin ekki hafa breyst. „Þetta er langt undir því sem við teljum að geti haldið læknum hér á landi. Ef 3% hækkun er staðreynd þá hvorki lokkar það unga lækna til landsins né heldur þeim gömlu hérna.“
Þá segir hún LÍ hafa miklar áhyggjur af því að ef kjaraviðræðurnar haldi áfram að dragast á langinn þá muni fólk gefast upp og leita sér að vinnu annars staðar. „Ég hitti gífurlegan fjölda lækna og auðvitað eru einhverjir að hugsa um það,“ segir hún. „En við erum ekki að efna til hópuppsagnar enda er það hvorki löglegt né æskilegt.“
Fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir munu standa yfir fram í miðjan desember, náist ekki samningar fyrir þann tíma. En hvernig verður framhaldið ef samningar nást ekki?
„Við munum halda félagsfund og ræða hvað eigi að gera. Það má að sjálfsögðu reikna með því að það verði áframhaldandi verkföll ef ekki semst. Það væri ótrúlegt ef læknar myndu allt í einu gefast upp og semja um 3% hækkun. Mér finnst það mjög ólíklegt.“